mánudagur, maí 30, 2005
Upplifun: Tónlistarstraff
Hér hefur ríkt fullmikil þögn undanfarið. Fyrir því er auðvitað góð og gild ástæða sem sett hefur svip sinn á hversdagslífið hjá okkur Vigdísi, en meira um það síðar. Í dag var svalt sólskinsveður og bíllinn sat í innkeyrslunni í allan dag. Ég hjólaði fram og til baka í og úr vinnunni og seinna um kvöldið röltum við saman í heimsókn til Ásdísar (systur Vigdísar í nágrenninu). Í millitíðinni lagði ég mig. Það var öndvegislúr sem einkenndist af draumkenndum samræðum við fuglasöng úr garðinum. Ég upplifði þetta sem einhver fegurstu hljóð sem hafa borist að mér og endurnærðist á stuttum hálftíma. Gat á þeirri stundu einhvern veginn ekki hugsað mér að eyða tíma mínum í að hlusta á tónlist í bráð, sama hversu fögur hún er. Þessi hugsun tók á sig þá mynd, einhvern veginn ósjálfrátt, að ég skyldi straffa sjálfan mig og gera mér far um að hlusta ekki á tónlist næstu dagana. Jafnvel vikurnar. Það fer alveg ótrúlegur tími í tónlist hjá mér. Hún stelur athygli frá mér þegar ég þarf að sinna ýmsum verkefnum. Hún tefur mig. Það er því kominn tími á tónlistarpásu í viku. Á þessu eru náttúrulega vissar undantekninar. Ég hlusta á það sem berst mér gegnum útvarp og sjónvarp. Ég leyfi gestum og Vigdísi náttúrulega að hafa sinn gang heima með sína tónlist. Hugsanlega set ég sjálfur tónlist á ef ég er beinlínis að vinna með hana með einhverjum hætti. En ekki til að fylla tómið. Ekkert svoleiðis.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli