miðvikudagur, maí 11, 2005

Upplifun: Listasöfn

Ég fór í vikunni á tvö listasöfn, annars vegar til að sjá útskriftarsýningu Listaháskólans á Kjarvalsstöðum og hins vegar óvenjulega safnarasýningu í Gerðubergi. Þetta hristir skemmtilega upp í huganum. Á LHÍ-sýningunni hreifst ég af lógóum sem hönnuð voru fyrir hvert hverfi Reykjavíkur (Laugardalurinn með hvíta hálfkúlu, miðbærinn með Hallgrísmkirkju og Breiðholtið með "Fuglabjargið" uppi í hæðum). "Af hverju fattaði þetta enginn fyrr?" spyr maður sjálfan sig. Þarna var líka frábær stóll sem líkir eftir tilfinningunni þegar maður sest í mosagróna laut. Ótrúlega þægilegur, fullur af opum og götum, óreglulegur í laginu, íklæddur gæruskinni. Þarna var fullt af fleiri flottum hugmyndum sem vonlaust er að segja frá hér. Magnað að finna hvernig sköpunarkrafturinn safnaðist saman í eitt. Flott sýning. Nokkrum dögum síðar kíkti ég síðan upp í Gerðuberg og hafði verulega gaman af skapandi söfnum á borð við plastpokasafn með merkjum löngu liðinna verslana (mmm... gamla góða Grammið) og Godzilla safn (plastskrímsli af öllum stærðum og gerðum). Best af öllu var þó snoturt ælupokasafn frá hinum ýmsu flugfélögum. Merkilegt hvað fyrirbæri sem tengist hreinu ógeði getur orðið snyrtilegt og pent ef rétt er á haldið.

Engin ummæli: