laugardagur, júlí 02, 2005

Pæling: Allsherjar rútínuhegðun

Ég ákvað að klippa á mér neglurnar um daginn og var rétt nýbúinn að klippa eina fingurnögl þegar ég hætti og pakkaði saman. Ástæðan var sú að Vigdís var nýsofnuð og ég fattaði að smellirnir gætu verið til óþæginda í kvöldkyrrðinni. Ekkert mál að halda áfram daginn eftir. Nema hvað, þegar ég held áfram daginn eftir og set mig í stellingar þá gríp ég í tómt. Ég sé að það er búið að klippa nöglina sem ég ósjálfrátt byrja á! Án þess að hugsa út í það hafði ég semsagt byrjað á nákvæmlega sama stað og daginn á undan þó svo ég væri fullfær um að klippa allar neglurnar án vandræða. Þá fór ég að velta fyrir mér hvort maður sé yfirleitt svona rútíneraður niður í smæsta smáatriði. Byrjar maður alltaf á því að klippa sömu nöglina? Ef maður heldur áfram á sömu braut getur maður spurt sjálfan sig hvort maður fari alltaf í sömu röð í sokkana? Bræði ég smjörklípu á pönnu alltaf réttsælis? Get ég yfir höfuð tannburstað mig með vinstri? Ósjálfráða kerfið hjálpar okkur óneitanlega en gerir okkur í leiðinni að svolítið hjákátlegum rútínuverum.

Engin ummæli: