föstudagur, júlí 29, 2005
Daglegt líf: Sumarglufa
Eftir vætutíð er ekki laust við að við Vigdís nytum okkar vel í sólríku vikunni sem er að baki. Við fórum nánast daglega í sund og notuðum garðinn okkar til hins ítrasta (borðuðum meðal annars kvöldmatinn okkar utandyra í almestu heiðríkjunni). Ég hjólaði um hverfið í þægilegum gír eða skokkaði. Við hittum ekki marga þessa daga en mæltum okkur þó mót við Kristján og Stellu. Við höfum ekki hitt þau mánuðum saman enda hafa þau verið búsett erlendis allan síðasta vetur og verða hér á landi aðeins í nokkrar vikur í viðbót áður en þau fara út aftur. Það vill svo skemmtilega til að þau eru nánast samstíga okkur Vigdísi í meðgöngu og tilvonandi barneignum í vetur og höfðum við því margt að ræða og margar bækur saman að bera. Talandi um bækur, Stella er líka nýútskrifuð sem bókmenntafræðingur og fannst mér tilvalið að færa henni skemmtilega bók að gjöf, sem hún virtist hæstánægð með (sjá hér). Þetta var annars makindalegt stund þar sem við flatmöguðum og "flatbökuðum" til skiptis í aflíðandi Bakarabrekkunni rétt fyrir neðan Humarhúsið á meðan afslappaður fjöldinn flaut fram hjá. Vikan er búin að vera dýrðleg og vonandi eigum við fleiri inni áður en sumarið skellur í lás með skammdegi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli