laugardagur, júlí 23, 2005

Daglegt líf: Vatnskassavandi

Ég er búinn að eiga í stökustu vandræðum með bílinn eftir að Gljúfrasteins- og Þingvallaferðinni lauk. Hann kom á blístrinu heim, eins og teketill, og sauð upp úr á bílastæðinu. Það kom alveg aftan að mér enda hafði ég ekki lagt mig fram um að fylgjast með hitamælinu á vélinni. Eina sem ég gat gert, úr því sem komið var, var að leyfa honum að kólna, fylla vatnskassann á ný með vatni (til bráðabirgða - frostlögurinn var ekki við hendina) og prófa að keyra hann á ný, stuttar vegalengdir, og sjá hvernig honum vegnaði. Í stuttu máli komst hann með herkjum 5-10 km. vegalengdir áður en hitinn rauk upp aftur (og þá var það spurning um að finna fyrsta útskot í akstursleiðinni til að stoppa í skyndingu). Hann fór því í meðferð hjá fagaðila og í ljós kom að vatnskassinn var þrælstíflaður. Hann hitnaði bara tæplega hálfur og annaði því ekki álaginu við venjulegan akstur. Vatnskassaviðgerðir (þ.e. -skipti) kosta um það bil 30 þúsund krónur en ég taldi mig vel sloppinn því svokölluð "head"-pakkning (sem ég kann ekki almennilega skil á) hefði hæglega getað skemmst í hita leiksins :-) og það hefði verið heilmikil viðgerð, upp á 10-20 klst. vinnu og hundrað þúsund kall. Ég pungaði því fegins hendi út þrjátíu þúsundunum og vona bara að bíllinn taki ekki frekari hitasótt í bráð.

Engin ummæli: