miðvikudagur, júlí 06, 2005

Netið: Settu plötusafnið á netið

Ég er alveg heillaður af síðu sem ég var að uppgötva. Hún heitir Rate Your Music og gengur út á það að notandinn geti nálgast óhemju tæmandi lista yfir tónlist og merkt við það sem hann eða hún á (og taka fram hvort það er diskur eða plata eða eitthvert annað geymsluform). Þar með birtist listi á netinu yfir plötusafnið. Ekki nóg með það heldur býðst notandanum að gefa plötunum einkunn og bæta við umsögn að vild. Síðan er hægt að fletta upp í plötusafninu eins og í excel-skjali eftir því hvort maður vill raða plötunum í titlaröð, stafrófsröð listamanna, einkunnaröð, tímaröð eða eftir því hvort efnið tilheyrir diskasafni, plötusafni eða kassettusafni. En þetta er bara byrjunin. Næsta skref er að kíkja á umsagnir annarra notenda um tiltekinn listamann (gagnagrunnurinn nær yfir mörg hundruð þúsund listamenn) og sjá hvað aðrir segja um þá, velja þann sem þér finnst traustvekjandi og skoða safnið hans/hennar í leiðinni. Maður lærir ótrúlega mikið á slíkri skoðunarferð enda eiga flestir alvöru plötusafnarar helling af fágætu efni sem fáir vita af. En það er líka boðið upp á sjálfvirka leið frá síðunni sjálfri. Hægt er að smella á "meðmæli" og þá birtir síðan þær plötur sem notandinn er líklegur til að hafa gaman sé tekið útreiknað mið af einkunnum hans í ljósi samsvarandi einkunna annarra notenda. Þetta er með ólíkindum. Svo er inni í þessu öllu saman sérstakt pósthólf þar sem bíður manns athugasemdir frá öðrum notendum. Í kringum þetta myndast því heilmikið samfélag safnara og tónlistarunnenda. Sjón er sögu ríkari. Ég er nýbúinn að setja inn um tuttugu plötur úr safninu mínu á heimasvæðinu mitt og stefni að því að dunda mér við þetta í frístundum næstu daga og vikur.

Engin ummæli: