laugardagur, júlí 02, 2005

Upplifun: Örlagavefur

Dagurinn í dag fór að miklu leyti í tiltekt. Eins og gengur safnast ryk auðveldlega saman í hornum og þar sem við búum á jarðhæð er ekki laust við að lítil kvikindi á borð við járnsmiði og köngulær láti á sér kræla í skúmaskotunum. Þetta finnst mér leiðinlegast við að ryksuga því ég fæ mig ekki til að ryksuga pöddurnar upp. Ég reyni eftir fremsta megni að flytja þær um set með glasi og pappír sem ég smeygi undir (klassísk aðferð) og varpa þeim mjúklega út um útidyrnar. Þær eru nú misjafnlega kátar með þetta. Ein þeirra æddi um "glerbúrið" svo ófriðlega að ég óttaðist að missa hana á niður á leiðinni út úr svefnherberginu (hver vill fá könguló í rúmið?). Fyrst hún lét svona illa ákvað ég að láta það eftir henni að sleppa henni og varpaði henni í nettri skyndingu út um opinn glugga rétt hjá - beint í köngulóarvef! Mér var nokkuð brugðið við að sjá þar þrisvar sinnum stærri könguló. Hún tók kipp undireins og fór að kanna málið. Í nokkrar sekúndur var eins og hún áttaði sig ekki á því hvers vegna könguló væri í vefnum en tók sig svo til og spann utan um hana, pakkaði henni saman á örskotsstundu. Ég stóð hinum megin við glerið og horfði agndofa á hildarleikinn úr mikilli nánd. Fann hálfpartinn til með litla kvikindinu sem ég hafði reynt að bjarga. Vissi ekki alveg hvort ég ætti að vera með samviskubit yfir bjarnargreiðanum eða heillaður af þessu einstaka sjónarspili sem ég gat fylgst með í smáatriðum. Reyna köngulærnar ekki að halda bráðinni sem ferskastri og sjúga úr henni næringu hægt og rólega? Það hefði ábyggilega verið mun þægilegra, eftir á að hyggja, að sjúgast inn i svartholið sem ég hélt á.

Engin ummæli: