miðvikudagur, júlí 06, 2005

Matur: Lasagna með túnfiski, sveppum og tómötum

Ég er rétt í þessu að klára leifarnar af frábærum mat sem ég bjó til í gær. Ekki er ég að stæra mig með þessum orðum heldur velti ég hrósinu yfir á uppskriftina sem kom úr Eftirlætisréttaseríunni góðu (undir titlinum "nýstárlegt lasagna"). Fyrir þá sem eru lunknir í að nálgast matargerð á eigin forsendum er grunnhugmyndin þessi:

Fyrst er sett þunnt lag af osta/rjómasósu. Síðan eitt lag af lasagnaplötum. Þá kemur aftur þunnt lag af sósunni og ofan á það þykkt lag af steiktum sveppum. Síðan kemur annað lag af plötum. Því næst túnfiskur í olíu og pipar sáldrað yfir. Aftur plötur. Ofan á allt þetta kemur síðasta lagið af ostasósunni ásamt öðrum osti og tómatskífum. Inn í ofn í um hálftíma.

Hér kemur "smáa letrið" (eða "forvinnan"):

Muna: Leggja plöturnar í nokkrar mínútur í bleyti áður en þær eru notaðar. Þetta tekur pláss. Steikarpanna með botnfylli af vatni nýttist mér vel í þessum tilgangi.

Passið að smjörsteikja sveppina (ca. 300 g.) og hellið matskeið af sítrónusafa yfir þá áður en þeir fara út í fatið.

Sósan er sæmilega frjálsleg og er fyrst og fremst peli af rjóma, hitaður við vægan hita, rifnum osti bætt úr í ásamt sósujafnara, salti og pipar (allt eftir smekk).

Túnfiskurinn er um það bil tvær dósir og megnið af olíunni látið fylgja með. Mér finnst persónulega best að hafa fiskinn sem heillegastan (í smástykkjum fremur en kurlaðan).

Gott er að strá parmesanosti yfir ostasósulögin. Fínt að taka til í ostabirgðunum og strá hverjum sem er yfir efsta lagið. Ég átti Mozzarella og notaði hann ásamt kurluðum brauðosti.

Tómatarnir eru ca. 2 stk. Þetta er auðvitað ekki krítískt.

Einu klikkaði ég á og það var meðlætið. Mælt var með hrásalati og hvítlauksbrauði. Ég sá í hendi mér hvað það væri tilvalið, eftir á að hyggja, en maturinn var samt fyrirtak án þess.

Engin ummæli: