þriðjudagur, júlí 12, 2005

Tónlist: Tónleikar - Antony and the Johnsons

Ég fór í gær á töfrandi tónleika með listamanni sem er þessi misserin að láta verulega að sér kveða (sjá dæmi um það hér). Hann heitir Antony og kallar sveitina sína the Johnsons. Hljómsvetin samanstendur af bassaleikara, klassískum gítarleikara, harmónikkuleikara, fiðluleikara og sellói. Sjálfur spilar hann á píanó og syngur með mjög óvenjulegri klassískri sópransöngrödd sem víbrar af mikilli innlifun svo að það jaðrar við að hann bresti í grát í hverju lagi. Tónlistin er eiginlega engu lík. Og þó. Góðkunningi minn Hjörvar (úr Voxinu hér um árið) var þarna líka og tók svo hnyttilega til orða að þetta líktist helst Lou Reed, bara áttund ofar, eða Tori Amos - ef hún væri karlmaður. Tónlistin er óræð og flýtur losaralega um án þess að hengja sig of í taktinn. Það kom skýrast í ljós í uppklappslaginu sem var eftir engan annan en Lou Reed (Candy Says). Lagið sveif um eins og sjálfstæð vera innan um upprunalegan takt og tóna. Antony gæðir tónlistina svo miklu lífi að það er eins og tónlistin öðlist eigið líf og umbreytir í leiðinni líðan manns gjörsamlega án þess að maður geti við það ráðið. Salurinn var heillaður.

Engin ummæli: