föstudagur, júlí 08, 2005
Upplifun: Kennitala misnotuð
Ég lenti í undarlegri stöðu í Bónusvídeó Spönginni. Tók þar spólu á leigu fyrir skjólstæðing minn á sambýlinu og gaf upp kennitöluna mína. Þá kom í ljós að ég skuldaði leigunni 10 þúsund krónur! Mér brá svolítið þó ég vissi ekki upp á mig neina sök. Í ljós kom að skuldin var út af tuttugu spólum sem ég kannaðist ekki einu sinni við að hafa séð! Augljóslega hefur einhver notað kennitöluna mína í sína þágu. Hugsa sér, hvað þetta er auðvelt, að gefa upp einhverja kennitölu (svo lengi sem hún passar við kynið) borga með peningum, kvitta út í loftið og labba svo burt. Ódýr lífstíðareign sú mynd. Svo er einhver allt annar bendlaður við þetta löngu seinna (síðasta færslan er meira en árs gömul). Ég er auðvitað ekki ábyrgur á neinn hátt. Kennitalan er opinber tala og hver sem er getur flíkað henni að vild. Mína kvittun er hvergi að finna. Það er fyrst og fremst lélegt hjá leigunni að það skuli vera svona einfalt að svindla á þeim og hreinlega vítavert að það skuli gerast margoft og ítrekað (tuttugu skipti, geri aðrir betur!). Ég á eftir að eiga orðastað við rekstraraðila út af þessu undarlega máli og fá þá til að hreinsa kennitöluna mína og benda þeim á það í leiðinni hvað kerfið sem þeir nota er fáránlega götótt. Hvað spóluna varðar sem ég ætlaði að taka þá fékk ég að hafa hana með mér í þetta skiptið. Vítavert?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli