laugardagur, júlí 23, 2005

Upplifun: Rannsóknarleiðangur um bakland Bifrastar

Á meðan bíllinn var í viðgerð (sjá síðustu færslu) nýttum við Vigdís tækifærið og skutumst upp í Munaðarnes í sumarbústað sem systir hennar var með á leigu. Við fengum náttúrulega far þangað með öðrum fjölskyldumeðlimum. Veðrið lék við okkur mest allan tímann og við spiluðum krokket liðlangan daginn og skemmtum okkur vel. Eftirminnilegust fannst mér þó að skoðunarferð sem ég fór með Sverri bróður Vigdísar. Við kíktum á foss í grennd Bifrastar sem heitir Glanni, mjög flottur, breiður í anda Gullfoss með myndarlegan laxastiga. Allt var krökkt af laxi sem sýndi snilldartilþrif við að hoppa upp flúðirnar. Skyldu þeir aldrei rotast í barningnum? Eftir fossviðdvölina héldum við för okkar áfram og kíktum loksins á Hreðarvatn. Ég segi "loksins" vegna þess að þetta er einn af þessum stöðum sem maður hefur keyrt hundrað sinnum fram hjá á spani án þess að gefa neinn gaum. Við vorum báðir gáttaðir á fegurð Hreðarvatns og Jafnaskarðsskógs í kring (sjá kort).

Þegar við höfðum dvalist uppi á hæð alllanga stund og drukkið inn áhrifin af skógivaxinni paradísinni og spegilsléttu vatninu (það gáraðist bara þegar fiskurinn tók sér flugu af yfirborðinu og myndaði fallegar hringgárur hér og þar) héldum við enn lengra og kíktum á Selvatn handan við hæðina. Þvílíkt land! Þar tók við önnur álíka fegurð, enn afskekktari. Vatnið myndaði glæsilega umgjörð um stakt par af fugli sem mér sýndist í hálfrökkrinu vera lómur (eða hugsanlega himbrimi). Yfir honum sveimaði taugatrekktur smáfugl og virtist ögra honum lítillega áður en hann tók sig til og gól eins og úlfur í ríki sínu. Þetta fannst mér toppurinn. "Lómurinn" virtist eiga vatnið og undirstrikaði það með því að skera á kyrrðina með góli sínu.

Engin ummæli: