miðvikudagur, júlí 20, 2005

Upplifun: Dvöl á Gljúfrasteini

Ég fór síðasta sunnudag í léttan bíltúr með yngri frændsystkinum mínum (Birki og Theodóru) gegnum Mosfellsdal á Þingvöll og þaðan heim. Við stoppuðum á Gljúfrasteini nokkra stund enda er Þröstur (pabbi þeirra og fyrrv. mágur minn) að vinna þar svo ég gat labbað inn á neins tilkostnaðar. Ég varð fyrir talsverðum hughrifum þarna inni. Mæli eindregið með því að fólk komi við og upplifi andrúmsloftið á heimili nóbelskáldsins. Burt séð frá virðingu minni fyrir Halldóri og arfleifð hans þá fyllti staðurinn mig lotningu strax við innkomuna. Heimilið er svo gegnsýrt af virðingu fyrir listum. Á veggjum hanga myndir Kjarvals og Svavars Guðnasonar og flygill prýðir stofuhornið. Sjálf stofan er klædd viðarþiljum til að mýkja hljómburðinn, enda fékk Halldór helstu tónlistarmenn landsins á sínum tíma til að halda tónleika í stofunni honum og öðrum listamönnum til ánægju. Vínylspilarinn minnti mann á gamla og kyrrlátari tíð sem er óðum að hverfa.

Engin ummæli: