Verslunarmannahelgin var innipúkahelgi hjá okkur í Granaskjólinu. Við fórum reyndar ekki á neina svokallaða Innipúkatónleika heldur tókum við skurk í vídeóglápi og af metnaði leituðum við fanga hjá Aðalvídeóleigunni. Við horfðum á tvær myndir á dag í tvo daga. Afraksturinn var þessi:
Tesis. Spænskur taugatryllir af bestu gerð. Minnti mig örlítið á Nattevagten hvað varðar frumlega nálgun og efnistök. Hún fjallar um kvikmyndafræðinema sem ákveður að skrifa um ofbeldi í kvikmyndum, fer á stúfana í hirslum skólans og kemst óvart yfir myndband með raunverulegum misþyrmingum og morði. Þá tekur verkefnavinnan náttúrulega allt aðra stefnu. Mjög flott handrit.
L´ennui. Frönsk kvikmynd um þráhyggjukennt, furðulegt og eiginlega óskiljanlegt ástarsamband. Við náðum engum tengslum við myndina. Okkur fannst hún langdregin og leiðinleg. Það hefur reyndar eitthvað með það að gera að okkur þótti erfitt að hafa frönskuna í eyrunum.
Angel Heart. Snilldarverk Alan Parker. Mjög myrk mynd í anda "Seven" (er reyndar um 10 árum eldri en hún). Handritið kemur verulega aftan að manni (löngu áður en það komst í tísku) og heldur manni fram að því í heljargreipum allan tímann. Reyndar er myndin mjög sérkennilegt sambland af hryllingsmynd og sakamálamynd. Leikurinn í hæsta gæðaflokki (Mickey Rourke kemur verulega á óvart og Robert De Niro er sérlega eftirminnilegur). Það sem fangaði mig hins vegar mest af öllu var handbragð leikstjórans, Alan Parker, enda er myndin mikið augnayndi. Hann hefur ótal oft sýnt hversu fagmannlega hann vinnur með öll sjónarhorn, klippingar og setur fram heillandi sjónarspil ljóss og skugga. Mynd til að eiga og skoða vel, ramma fyrir ramma.
Bad Guy. Kóreysk mynd um dapurleg örlög ungrar stúlku sem hneppt er í þrældóm vændis. Stuggar við manni með svipuðum hætti og Lilya-4-ever. Hún er reyndar ekki eins óþyrmileg því stílbragð leikstjórans er allan tímann mjög fágað og listrænt. Fegurðin nær einhverra hluta vegna að ráða ríkjum allan tímann, jafnvel á hrottalegustu augnablikum. Samband stúlkunnar við mangara sinn er stundum baðað dularfullum rómantískum ljóma, gegnum ríkjandi tómleika. Mjög sérkennileg mynd. Handbragðið minnir svolítið á Requiem for a Dream, sem sýnd verður í sjónvarpinu um næstu helgi.
Jæja, núna ætlum við að horfa svolítið á Himalaya-seríu Michal Palins, sem sýnd var í sjónvarpinu nýlega. Ég fann hana á bókasafninu í Hafnarfirði og get notið þess að fara mjög vandlega gegnum ferðalag hans um "þak heimsins".
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli