laugardagur, ágúst 27, 2005
Pæling: Baunir og hnetur
Á kaffistofunni í skólanum áttu sér stað undarlegar samræður sem snerust um hnetur. Einn kennarinn kom með þá staðhæfingu að svokallaðar "salthnetur" (sem í raun eru bara saltaðar "jarðhnetur") væru ekki hnetur heldur baunir og væru því grænmeti (legumes). Því til stuðnings benti hún á að í enskumælandi heimi væru þessar hnetur ekki kallaðar jarðhnetur heldur baunahnetur (peanuts). Þá fór maður að velta fyrir sér orðaflórunni og hvernig hún myndi umbreytast öll ef maður kallaði allt sínu rétta nafni. Ef jarðhnetur ættu að heita baunahnetur þá yrði hnetusmjör kallað baunahnetusmjör. Þar sem hnetusmjör er ekki bara notað á brauð mætti allt eins kalla það baunahnetumauk. Þær afurðir sem samanstanda fyrst og fremst af þessu mauki, eins og Satay-sósan (sem notuð er mikið í Indónesíska rétti og er afar vinsæl í Hollandi) héti því baunahnetumaukssósa. Hollenskur samkennari minn brosti mikið að þessu enda væri hugtakið ólíkt stirðara í daglegu tali en Satay-sósa - og kannski ekki eins girnilegt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli