mánudagur, ágúst 08, 2005

Veikindi: Góðkynja stöðusvimi

Ég er búinn að vera hálf skrýtinn undanfarna þrjá daga. Það byrjaði seinni part garðdagsins svokallaða, þá kom ég dasaður heim úr sundferð. Ég fór að vera eitthvað þreyttur í hausnum og fékk undarlegan svima. Auðvitað hélt ég að þetta væri undanfari hefðbundinnar flensu og hafði hægt um mig það sem eftir var dagsins. Daginn eftir var ég einkennalaus og mjög ferskur, fór í bæinn og horfði á Gay Pride gönguna ásamt Vigdísi. Aftur gerðist það hins vegar við heimkomu, seinni partinn, að ég fór að finna fyrir þessum svima ásamt þreytu í hausnum. Sviminn var ólíkur venjulegum svima sem fylgir lágum blóðþrýstingi. Ég þekki þann svima vel. Hann hefur fylgt mér í gegnum tíðina. Mér hefur nokkrum sinnum sortnað fyrir augum við það eitt að standa skyndilega á fætur. Þessi svimi virtist hins vegar vera öðruvísi og brestur á við einfaldan höfuðsnúning. Til dæmis hallaði ég mér aftur þegar ég var að gæða mér á ís í brauðformi (formið byrjaði að leka og ég þurfti þá að sjúga ísinn úr forminu). Við þetta fékk ég öflugan svima. Mig svimaði jafnvel við það að bylta mé uppi í rúmi. Okkur fór þá að gruna sterklega að þetta hlyti að vera eitthvað inni í innra eyranu, frekar en blóðþrýsingurinn, ef til vill sýking af völdum ofnæmisins. Það stóð heima. Stutt læknisskoðun á sunnudagsmorgni leiddi í ljós að þetta var góðkynja stöðusvimi sem á útlenskunni útleggst sem "benign paroxysmal positional vertigo". Þar hafiði það. Þetta á víst að ganga yfir á innan við viku. Ég fann fyrir engum svima í gær þannig að það getur verið að þetta sé nú þegar yfirstaðið.

Engin ummæli: