Við Vigdís erum svo heppin að hafa aðgang að fallegum og myndarlegum garði með tilheyrandi grasflöt, beðum og trjágróðri. Því fylgir náttúrulega heilmikil vinna en sem betur fer er henni ekki allri velt yfir á okkur. Ég sé um að slá blettinn á um það bil tveggja vikna fresti en bæjarvinnan er hins vegar fengin til að hirða beðin tvisvar á sumri. Þetta skilst mér að sé þjónusta bæjarins við "gamla fólkið", en eigandi lóðarinnar er einmitt eldri kona sem, þrátt fyrir fjarveru sína vegna veikinda, er annt um garðinn sinn.
Svo stendur maður sjálfur, fullfrískur og horfir á mannskapinn úti í garði (ýmist sofandi eða í vatnsslag) og finnst í rauninni vera meira ónæði af þessu brölti en þjónusta. Í fyrra skiptið var það að minnsta kosti með þeim hætti. Þau unnu sína vinnu með hangandi hendi og skildu eftir stór svæði í órækt. Þegar þau voru farin sá ég fram á að þurfa að taka til í beðunum sjálfur, sem óx mér nokkuð í augum. Í gær komu þau hins vegar í seinna skiptið. Það var víst annar hópur sem mér skildist að væri töluvert duglegri. Ég leit á hópinn sem velkomna aðstoð við mig enda hefði ég sjálfur átt að sinna garðinum betur í sumar. Til að gera sem mest úr þessari "aðstoð" byrjaði ég daginn á því að skella margrómuðu bananabrauði í ofninn og bauð þeim það í kaffihléinu ásamt osti, sódavatni og pepsí. Þetta sló í gegn og létu þau sérlega vel að brauðinu. Veðrið var líka frábært og afköstin voru eftir því mjög fín. Þau töluðu um það á meðan þau mauluðu brauðið hvað þetta var búið að vera erfitt sumar enda stöðug vætutíð vikum saman. Þar sem þetta var síðasti dagurinn hjá þeim flestum, sól í heiði og fint veður, sögðu þau það mikils virði að lenda á svona góðum "garði" svona í lokin.
Satt að segja var ég búinn að vera með nokkuð samviskubit yfir því í alllangan tíma að geta ekki sinnt garðinum almennilega. Vegna vaxandi áhuga á garðyrkju gat ég ekki á mér setið og tók þátt í því með hersveitinni að snyrta garðinn. Miklu skemmtilegra að gera það í kröftugum hópi heldur en eftir á. Ég gerði svona það smámunalegasta eins og að kantskera og annaði í þeim dúr, allt það sem mér fannst leiðinlegast að biðja aðra um. Í leiðinni var ég bæði sýnilegur og að einhverju leyti til leiðbeiningar um frágang. Þetta var feykilega gaman og ég græddi ábyggilega sjálfur lang mest á þessu enda kynntist ég garðinum algerlega upp á nýtt með þessu brölti mínu. Ég vissi nefnilega ekki ég fyrr en ég tók á garðinum hversu miklar dásemdir hann hefur að geyma. Rabarbarinn og ribsberin fara reyndar ekki fram hjá neinum en inn á milli má hins vegar finna gnægð af graslauk, einhvers konar lakkrísrunna og duglega sprettu af myntu á leyndum stað, svo að ekki sé minnst á allar matjurtirnar sem ég hef sett niður í matjurtargarðinum (sem núna hýsir rósmarín, basilikum, villiblóðberg og jarðarberjarunna). Það er því alveg ljóst að það sem eftir lifir sumars á öll matseld á eftir að taka mið af matarkistunni bakatil.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli