mánudagur, ágúst 22, 2005

Fréttnæmt: Fyrri hluti - Geitungaskúrinn

Yfirleitt þegar illa gengur að skrifa þá stafar það af því að of mikið hefur gengið á og lítill tími verið til aflögu. Ég hef ekki skrifað núna í um tíu daga. Það byrjaði með geitungatörn á miðvikudaginn fyrir rúmri viku síðan. Geitungabú uppgötvaðist innan á klæðningunni á bílskúrnum okkar, nágrannamegin. Þaðan barst okkur kvörtun og ég leitaði strax til Jóns Más, sem hefur svo heppilega farið á námskeið í útrýmingu meindýra. Hann þurfti í stuttu máli að heimsækja okkur nokkrum sinnum því staðsetningin á búinu gerði honum illkleift að ráða niðurlögum búsins. Með eitri tókst ekki að metta loftið kringum búið því loftgöt voru nánast á allri húshliðinni. Flugurnar fundu alltaf nýja leið út úr klæðningunni og inn aftur - þar til við tókum á honum stóra okkar og fylltum inn í öll nærliggjandi göt. Síðan hefur ekki borið mikið á flug(u)umferð í grennd við skúrinn. Mér verður samt stundum hugsað til þeirra þar sem þær kunna að vera að svelta innanklæðningar á bílskúrnum. Hálf óskemmtileg mynd sem hugurinn bregður upp af þeim viðburði. En það er bara ég. Sem verðlaun fyrir rösklega framgöngu bauð ég Jóni inn, ásamt Margréti sem var með honum í úrslitaskiptið, og bauð þeim upp á allsherjar svarta veislu. Hún samanstóð af hálf ógeðslegum Batman-frostpinna (sem við Vigdís keyptum nýverið á tilboði) og krækiber (með rjóma og vænum slurki af hindberjaís). Þau gerðu veitingunum að sjálfsögðu góð skil.

Engin ummæli: