mánudagur, ágúst 22, 2005
Fréttnæmt: Seinni hluti - uppákomur alls staðar
Undanfarna daga hefur verið ærið mikill erill. Hann hefur reyndar verið af ánægjulegra taginu í formi tónleikahalds, hátíðahalda og heimboða. Byrjum á miðvikudeginum. Þá héldu Sonic Youth, hin geysimagnaða hávaðabeislandi rokksveit frá New York, tónleika á NASA. Það var upplifun út af fyrir sig að sjá þá því ég hef haldið upp á þá síðan ég var á unglingsaldri. Ég hitti nokkra vini mína eftir tónleikana og við urðum að skella okkur á Kaffibrennsluna til að gera tónleikana upp. Ég kom því seint heim það kvöldið. Daginn eftir þraukaði ég syfjaður undirbúningsvinnudag í skólanum (nú er það allt að fara af stað) og uppgötvaði á síðum Fréttablaðsins að einvalalið íslenskrar tónlistarflóru ætlaði sér þá um kvöldið að troða upp á Grandrokk með svokölluðum Bowie-tribute tónleikum. Þetta voru þeir Guðmundur Pé. á Gítar, Birgir Baldurs á trommu og fleiri. Ég hringdi í flesta Bowieunnandi vini mína og boðaði þessa stórveislu af mikili skyldurækni og brennandi áhuga. Tveir þeirra mættu á staðinn (Jón Már - ásamt bróður sínum reyndar - og Halldór, sem hefur unnið með mér árum saman á sambýlinu í Grafarvogi). Við skemmtum okkur einstaklega vel enda var mikil partýstemning þarna inni, eins og vera ber. Tónlistin er náttúrulega frábær og henni var gerð mjög músíkölsk og kraftimikil skil. Aftur skilaði ég mér seint heim. Næsti vinnudagur var enn erfiðari og höfðu menn það á orði að ég væri ekki enn búinn að skila mér niður á jörðina. Þannig var það langt fram eftir degi þangað til þreytan fór að segja verulega til sín seinni partinn. Það var í raun óheppilegt því einmitt þá hófst ég handa við að klæða mig í mitt fínasta skart því Kristján var að halda útskriftarveislu sem doktor í eðlisfræði ásamt Stellu sem nýlega kláraði B.A. í bókmenntafræði (og þau á leiðinni út til Danmerkur í næstu viku). Upp á þetta var haldið með pompi og pragt. Mig grunar hins vegar að ég hafi sveimað um eins og hálfgerður draugur því ég var á fullu að skrapa orku upp úr varatankinum. Ég naut þess engu að síður að spjalla við gesti, einkum foreldra þeirra Kristjáns og Stellu og virti fyrir mér húsakynnin sem voru glæsileg. Veitingarnar voru einnig hreinasta afbragð. Ég fór hins vegar sæmilega snemma að sofa í þetta skiptið. Gat reyndar ekki sofið út því ég ákvað að skutla Vigdísi á morgunvakt og fór svo í bæinn á svokallaða Menningarnótt þá um morguninn. Það var eiginlega bara lýjandi. Keypti mér þó slatta af geisladiskum í 12 tónum (allt á hálfvirði). Fór heim í millitíðinni, sótti svo Vigdísi og fór í bæinn aftur. Labbaði að lokum heim með Vigdísi í eftirminnilegu skyndiúrhelli að flugeldum loknum. Það var því ekki fyrr en á sunnudag að ég gat fyrst farið að slaka á. Fór upp úr hádegi í afslappaða og þægilega kaffiheimsókn til Einars og Sólveigar í Kópavoginum þar sem ég hitti Kristján og Stellu einnig. Við spjölluðum um útskriftir, ferðalög og barneignir (kannski mest um barneignir). Gott að slaka aðeins á efti þetta allt saman áður en vinnuvikan hefst á ný fyrir alvöru.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli