mánudagur, ágúst 08, 2005

Vídeo: Mannránsmyndir

Ekki er meiningin að tíunda gæði allra þeirra mynda sem við Vigdís sjáum. Það yrði með tímanum hvimleitt og tilgangslaust. Ég stenst hins vegar ekki mátið í þetta skiptið vegna þess að í vikunni sáum við tvær myndir sem tengjast innbyrðis. Þær eru báðar rómaðar mannránsmyndir. Fyrst sáum við myndina Breakdown sem tekin var upp fyrir okkur úr sjónvarpinu. Ágætis afþreying. Svolítið öfgakennd og ótrúverðug en engu að síður heldur hún manni vel við efnið. Þessi mynd varð hins vegar til þess að við tókum aðra sem líklega telst vera rómaðasta mannránsmynd allra tíma, the Vanishing. Ég sá hana fyrst fyrir nokkrum árum og gat ekki á mér setið að sjá hana aftur. Ólíkt Breakdown gengur þessi mynd hundrað prósent upp og gerir beinlínis út á þá að maður setji sig í spor og huga kaldlynda mannræningjans. Maður stendur sjálfan sig að því að eiga tiltölulega auðvelt með það. Algjör sálfræðihrollur. Ég verð hins vegar að benda fólki á að sjá hollensku frumgerðina (Spoorlos) frekar en þá amerísku. Á þeim er veigamikill munur.

Engin ummæli: