föstudagur, febrúar 03, 2012

Tónleikar: Valgeir sextugur

Ég hef rétt nýlokið við að laga hið "snöggsoðna yfirlit ársins 2011" sem ég gerði í byrjun janúar. Þar sagðist ég ekki hafa farið á tónleika á árinu, en það var ekki rétt. Ég fór á tónleika með Svart-hvítum draumi, rokksveitinni hans doktors Gunna. Tónleikarnir voru bara ekki nógu eftirminnilegir, satt best að segja. Svo fór ég líka á óperu, sem strangt til tekið getur flokkast undir tónleika, en ég upplifði meira sem leiksýningu. Ég bætti því við færslu um leiksýningar og í leiðinni bætti ég við færslu um áramótaþátt Hljómskálans, sem var mér eins og opinberun.

En talandi um tónleika þá gerði ég mér lítið fyrir og fór á afmælistónleika Valgeirs Guðjónssonar um daginn. Mér áskotnuðust tveir miðar á síðustu stundu og lét hann Jón Má græða á því, enda hafði hann stuttu áður gefið í skyn að hann gæti hugsað sér að skella sér ef ég ætlaði. Það hafði selst upp á skömmum tíma eftir umfjöllun um Valgeir í fjölmiðlum og við misstum upphaflega af miðum en einhvern veginn náði ég að kippa í spotta með því að hringja í rétt númar, fór í einhvers konar pott og fékk miða á lágu verði en undarlegum stað. Við sátum til hliðar við sviðið í sætunum sem skilgreind eru sem kórsæti. Þar upplifðum við okkur sem hluta af starfsmannahópnum af því við horfum frá hlið og inn á sviðið. Hljómurinn á þessum stað var ekki sérlega góður. Hann var dempaður og vantaði tilfinnanlega alla skerpu. Talmál var svolítið bælt og rokkhljómur eins og á bak við gluggatjöld. Hins vegar fengum við frábæra sýn á sviðið og þar bakatil sátu flytjendur við dekkað veisluborð á meðan þeir voru ekki í aðalhlutverki, eins og í alvöru afmælisveislu, og gæddu sér á veisluföngum. Maður sá á þeim Diddú, Agli, Jóni Ólafs (þúsundþjalasmið) hvernig þau fíluðu tónlistina eins og þau væru stödd í löngu tímabæru partíi. Diddú var eitt sælubros. Svo lyftu þau upp míkrófonunum öðru hvoru, ýmist sitjandi eða stóðu virðulega upp og kyrjuðu eftir því sem við átti, á meðan Valgeir stóð fremst á sviðinu með ýmsum meðflytjendum. Stemningin var þrusugóð. Það er óhætt að segja. Valgeir sló stöðugt á létta strengi, sérstaklega þegar babb kom í bátinn, strengur slitnaði eða eitthvað þvíumlíkt. Þá er hann í essinu sínu. En annars stóðu lögin upp úr, allar þessar gersemar sem hann hefur samið í gegnum tíðina, hryggjarstykkið úr katalóg Stuðmanna auk perla fyrir Diddú, Spilverkið og fleiri. Eftir tónleikana komst ég að því að hann samdi tónlistina fyriri "Hrekkjusvínin" eins og hún lagði sig þó raddir Spilverksins hafi hljómað allt um kring. En þvilík lagaveisla. Það sem kom mér hvað mest á óvart var innkoma Diddúar. Þegar hún söng "Stellu í orlofi" (sem ég hef aldrei haldið upp á hingaði til) gerði hún það með slíkum bravúr að ég fékk gæsahúð. Það var eins og hún væri sjálf á nostalgíutrippi og hefði lengi þráð að synga þessi lög aftur. Svo var flutningur Spilverksins hálfum tónleikum seinna (Diddú, Valgeir og Egill) alveg magnaður. Svo að ekki sé minnst á hápunkta Stuðmanna....þau endurómuðuð lengi lögin.

Engin ummæli: