sunnudagur, febrúar 12, 2012

Upplifun: Afmæli ömmu Vilhelmínu

Það er nú eitt og annað sem ég náði ekki að skrifa um í síðasta mánuði annað en tónleikarnir sem ég minntist á síðast. Öll stórfjölskyldan átti til að mynda mjög eftirminnilega samverustund í síðustu viku mánaðarins í tilefni af því að hundrað ár voru liðin frá því amma Vilhelmína fæddist (26. janúar). Hún fæddist á því merkilega ári 1912 sem sumir vilja meina að marki endalok tímabils sem einkenndist af einfeldni og sakleysi ("The Age of Innocence"). Fram til 1912 trúðu Vesturlönd statt og stöðugt á framfarir og að tækninýjungar og aukin þekking muni leiða til farsældar. Fyrsta flugvélin hafði nýlega hafið sig til flugs og bílar voru farnir að vera algengur farkostur. Bjartsýni einkenndi hugarfar tímabilsins. Mannkyn hafði loks kannað allar álfur heimsins og spannað heiminn þveran og endilangan með dramatískum leiðöngrum. Suðurpóllinn var loksins "sigraður" árið 1911. Bretar voru herrar heimsins og siðprýði þeirra og fágun var táknmynd um vald þeirra. Þeir töldu sig hafna yfir tilfinningalegt hömluleysi á sama hátt og þeir töldu náttúruna sér undirgefna. Þeir voru drottnarar heimsins. En einmitt þegar framförum mannanna virtust engin takmörk sett sökk Titanic. Það var árið 1912. Þetta var mikið áfall og eiginlega óskiljanlegt. Hvað sögðu þeir? "En þetta átti ekki að vera hægt!" Þetta var fyrsti stóri atburðurinn sem kallaði á gagngert endurmat á hugmyndum manna um lífið og tilveruna. Stuttu seinna skall fyrri heimsstyrjöldin á með skotgrafahernaði sínum og gerði út af við alla rómantískar hugmyndir manna um stríð. Listamenn um allan heim brugðust við af miklu vægðarleysi. Þeir höfnuðu öllum klassískum gildum og helltu sér út í algjöra tómhyggju: Atómskáld komu fram sem settu fram ljóð án ríms, tónskáld sömdu "tónlist" með engri melódíu, samansettri af nótum í furðulegu og merkingalausu tómarúmi og málarar hættu að herma eftir veruleikanum og helltu sér út í óhlutbundna list (abstrakt). Vesturlönd voru í siðferðislegri tilvistarkreppu um langt skeið upp úr 1912.

Einmitt þá var amma nýfædd.

Við héldum upp á daginn á mjög einfaldan hátt. Afkomendur ömmu (pabbi, bræður hans og börn) komu saman á grafreitnum og lögðu þar friðarkerti og blóm. Það var enn gríðarmikill snjór á þeim tíma og við þurftum að hafa mikið fyrir því að finna legsteininn undir farginu. Sem betur fer var ég með skóflu í bílnum. Svo fórum við öll saman upp í Perlu og fengum okkur þar rjúkandi súpu eða eitthvað annað girnilegt. Mætingin var gríðarlega góð og stemningin var frábær. Snjóbrynjan lá með mjög dramatískum hætti utan á glerhjúp Perlunnar og gerði umhverfið mjög framandi og tilkomumikið. Ekki skemmdi fyrir heiður næturhiminn með tignarlegt tunglið ásamt Venusi og Júpíter hangandi yfir okkur. Við þessar aðstæður var gaman að spjalla við ættingja og vini. Þetta var skemmtileg samkoma.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta var rosalega skemmtilegt!!!
Má ég setja þetta á Facebook síðu afkomendanna ???
kv.Begga