laugardagur, mars 03, 2012

Upplifun: Jarðarför

Við fórum í jarðarför í vikunni. Eiginmaður móðursystur minnar, Jón Sigurðsson, lést nýverið af slysförum. Sú saga er raunar mjög átakanleg og ekki ástæða til að fara út í það hér. Hins vegar var furðumikill friður og jafnvægi í sjálfri jarðarförinni, þrátt fyrir að sorgin væri mikil. Jón var ákaflega afslappaður maður og þægilegur í umgengni. Ég hitti hann eiginlega eingöngu í jólaboðum og öðrum veislum - kannski tvisvar eða þrisvar á ári - en passaði alltaf sérstaklega upp á að tala við hann í hvert skipti því hann gaf frá sér svo góða og jákvæða orku. Hann hafði frá mörgu að segja enda hafði hann ásamt Ínu (móðursystur minni) ferðast vítt og breitt um heiminn. En fyrst og fremst var bara notalegt að eiga samskipti við hann. Hann var svo afslappaður í eigin skinni, ef svo má segja, að maður varð alltaf pollrólegur nálægt honum. Það þurfti aldei að kreista fram umræðuefni eða setja sig í stellingar. Þannig var hans líka minnst í minningarræðunni í kirkjunni, sem séra Sigurður Jónsson las af einstakri stimamýkt. Það var með sérstakri ánægju sem ég hlustaði á Sigurð því ég þekkti hann vel frá þeim tíma þegar ég bjó á Hellu. Þá var hann prestur að Odda á Rangárvöllum. Ég þekkti hann býsna vel því ég kenndi börnunum hans. Svo þekkjast auðvitað allir í litlu bæjarfélagi, beint eða óbeint. Svo þekkti ég kórinn líka. Þegar ég heyrði einstaklega vandaðan flutninginn fannst mér ég beinlínis eiga heima í tónlistinni og fór að kanna hvaða gæðakór þetta væri: Jú, kirkjukór Áskirkju, hvað annað! Ég hef einmitt haft þann kór sérstaklega í huga að undanförnu þegar ég hef leitt hugann að þeim möguleika að fara að syngja aftur. Sá kór er með þeim betri á höfuðborgarsvæðinu, án vafa, og ég þekki nokkra þar innanborðs. Það var því margt sem stuðlaði að notalegri stund á meðan maður hugsaði til þess hvað Jón var einstakur í sinni röð. Það var líka gott og gefandi að hitta ættingjana eftir á þrátt fyrir erfiða daga.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já falleg en sár athöfn.

Nafnlaus sagði...

Já falleg en sár athöfn.