föstudagur, mars 16, 2012
Daglegtlíf: Borðað á Einari
Nú styttist í stórafmæli hjá mér. Ég skríð inn fyrir mörk fimmtugsaldursins næsta sunnudag, eins fáránlega og það hljómar. Það verður hins vegar ekkert sérstaklega haldið upp á það. Ég verð líklega bara heima og býð upp á kaffi og með´ðí ef einhver vill kíkja en ekkert stórvægilegt. Við Vigdís erum reyndar búin að halda upp á áfangann saman. Hún keypti handa okkur gjafabréf á Rauða húsið á Eyrarbakka sem við hugðumst nota um síðustu helgi. Það var búið að redda pössun og við í startholunum þegar veðrið fór snarversnandi. Það var tvísýnt um lokun yfir heiði þannig að við drógum fram plan B. Við nýttum okkur tilboð á vegum World for 2 á Einar Ben. Þar gátum við borðað þrírétta máltíð á hálfvirði, sem reyndist vera Seljurótarsúpa, lax og dökk súkkulaðikaka í eftirrétt, ásamt kaffi. Þetta var frábær máltíð, akkúrat passleg. En smjörið sem borið var fram með brauðinu stal senunni: ristað smjör! Hafiði heyrt annað eins? Með ákveðinni vandmeðfarinni aðferð er smjörið ristað léttilega og það dregur fram ótrúlega skemmtilegan keim. Þetta var álegg út af fyrir sig. Svo var staðurinn sjálfur alveg einstakur. Þetta var mín allra fyrsta heimsókn á Einar Ben og ég kem klárlega aftur. Öll aðstaða var til fyrirmyndar, andrúmsloftið tímalaust og þjónustan afslöppuð og róleg. Það er einmitt það sem við Vigdís viljum þessa dagana.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli