laugardagur, mars 17, 2012

Pæling: Ferðalag um tuttugustu öldina

Saga tuttugustu aldarinnar hefur verið mér hugleikin að undanförnu. Það byrjaði í skólanum þar sem ég kenni. Fyrir þá sem ekki átta sig á kennsluumhverfinu þá sinni ég sérkennslu og er með fáa nemendur í stofunni í einu (kannski 2-4) og er yfirleitt að vinna með ýmiss konar grunnfærni, eins og að lesa eða reikna. Oft koma til mín nemendur sem hvorki kunna á klukku né átta sig á umhverfi sínu, muninum á vinstir og hægri eða sögulegu samhengi. Margir nemenda minna eru haldnir mikilli skólafælni eða svo miklum athyglisbresti að hefðbundin námsgögn duga skammt. Það er mjög brýnt við þessar aðstæður að hafa námsþætti mjög áþreifanlega; eitthvað sem hægt er að föndra með eða fikta í. Einnig hef ég lagt áherslu á að kennsluefnið sé sýnilegt öllum stundum sem eðlilegur hluti af umhverfi nemandans í stofunni, eins og plaköt og annað í þeim dúr. Oft útbý ég kennslugögn sérsniðin að þörfum þessara nemenda og hef til að mynda sett líkan af sólkerfinu upp á vegg. Það sem ég hef verið með hugann við að undanförnu er tímaás sem rennur saman við dyrakarm sem er áberandi í stofunni. Þar hef ég markað ártöl frá 1900 og upp úr. Við hlið dyrakarmsins má svo finna spjöld sem staðsett eru á réttum stað samkvæmt framvindu sögunnar. Á þessum spjöldum eru stutt lýsing á sögulegum atburði ásamt ártali. Þetta sjá nemendur og geta leikið sér með ef þau verða leið á námsbókunum. Ég er reyndar enn í öða önn að útbúa þetta og velja sögulega atburði á vegginn en ég sé fyrir mér að nemendur geti fengið spjöldin í hendur (þau eru bara fest með kennartyggjói) með það fyrir augum að raða atburðunum aftur rétt upp. Þetta er bæði æfing í að staðsetja háar tölur á lóðréttri talnalínu en verður á sama tíma tækifæri fyrir nemendur til að fræðast um einhvert tiltekið ártal eða atburð. Þeir nemendur sem er fróðleiksfúsir og spjallasamir eru mjög líklegir til að komast á flug í kjölfarið í tengslum við það sem er þeim helst hugleikið.

En hvað um það, ég hef verið að vinna í þessu og pæla í því hvaða atburðir standa upp úr tuttugustu öldinni. Auðvitað hef ég nýtt mér vinnu annarra hvað þetta varðar (eins og þessa síðu hér sem ég prentaði út og krotaði í) en þegar upp er staðið kem ég alltaf til með að þurfa að vega og meta hvað varðar mína nemendur og hvað ekki. Heimsviðburðir eins og kreppan 1929, heimsstyrjöldin 1914-1918 og seinna stríðið 1939-1945 komu strax upp í hugann ásamt tunglgöngunni 1969 og falli Berlínarmúrsins 1989. Hins vegar þurfti ég að glöggva mig á ýmsu öðru og komst með þessari markvissu vinnu að því að ég áttaði mig ekki nógu vel á mörgum meginatburðum aldarinnar. Þá fékk ég óvænt í hendur merkilega bók sem ber nafnið Century. Ég fékk hana að láni, sem betur fer, því sú bók er gríðarlega þykk og vegleg. Ég prísa mig beinlínis sælan að hafa getað skilað henni aftur en á meðan ég lumaði á henni (í um það bil tvær vikur) skoðaði ég hana mjög vandlega. Þetta er áhrifamikil og oft á tíðum sjokkerandi ljósmyndabók sem fer með mann í nærgöngult ferðalag um öldina sem leið. Á meðan ég fletti í gegn áttaði ég mig enn betur á því hvað ég þekkti ógnarsögu aldarinnar illa. Það kveikti í mér löngun til að fara í saumana á nokkrum af helstu þráðunum: blóðuga byltingarsögu rómönsku Ameríku, viðbjóðslegar einræðisstjórnir í Afríku og furðulega stjórnarhætti í bæði Kína og Sovétríkjunum sálugu. Og hvernig var þetta með Biafra, Kambódíu, Londonderry og deiluna milli Pakistan og Indlands sem kostaði tugi þúsunda lífið eða innrás Sovétmann í Afganistan? Hryðjuverk urðu mjög áberandi á öldinni upp úr stofnun Ísraelsríkis og breiddist út víða. Þetta þarf ég allt að skoða betur sem og forsendur Bandaríkjamanna til að stunda óhæfuverkin í Víetnam. En þetta var ekki bara eymd og hörmungar. Á öldinni sem leið hlutu mannréttindi allra loks viðurkenningu og þjóður bundust ýmsum varnarbandalögum sem virkuðu hamlandi á allan stríðsrekstur. Á jákvæðu nótunum var líka hægt að fylgja eftir örri tækniþróun á þessu tímaskeiði í sögu mannsins. Hvenær kom gramófónninn fyrst fram, fyrsta myndavélin fyrir almenning eða hljómyndin? Það er stórmerkilegt að athuga áhrif ljósritunarvélarinnar á skrifstofustörf út um allan heim, breytingu á samskiptum manna með síbreytilegri samskiptatækni og framfarir í læknavísindum. Í sama dúr má skoða "alvarlegri" tækniframfarir (sem hafa bein áhrif á valdastöðu þjóða) eins og fyrsta gervihnöttinn, fyrsta geimskotið eða fyrstu þyrluna svo að ekki sé minnst á þróun kjarnorkusprengjunnar. Allt þetta gerist í einhvers konar jafnvægi þannig að eitt leiðir undursamlega af öðru hversu kaótísk sem söguleg framvindan kann að virðast. Í flestum tilvikum er það nú þannig að einn atburður gæti ekki hafa gerst á öðrum tíma en raun bar vitni. Það er einmitt það sem menn eiga við með sögulegu samhengi hlutanna.

Fyrir þá sem hafa gaman af að grúska vil ég benda á frábæra afþreyingarsíðu sem er skrifuð af þekkingu og innsæi. Hún heitir listverse og þematískt flokkað safn af top 10 listum yfir alla hugsanlega hluti, með ítarlegri umfjöllun um hvern efnisþátt. Sagnfræðikaflinn býður meðal annars upp á þessa frábæru samantekt: 10 Worst Moments in Human History. Lesefnið er ekki fyrir viðkæma. Það segir sig líklega sjálft.

Engin ummæli: