þriðjudagur, október 05, 2010

Upplifun: Heimildamyndir og hreyfimyndagerð

Hinni alþjóðlegu kvikmyndahátíð er nýlokið. Ekki var maður duglegur að sækja sýningar en fór þó á eina heimildarmynd í Norræna húsinu rétt fyrir helgi. Hún hét "Earth Keepers" og fjallar hún um leit fyrrum öfgafulls aðgerðarsinna að raunhæfum lausnum fyrir framtíð Jarðar. Hún er ólík flestum öðrum myndum um umhverfismál að því leyti að hún fyllir mann von frekar en örvæntingu. Margar lausnanna eru mjög áhugaverðar og einfaldar. Ekki meira um það hér (skoðið þó vefsíðuna). Hins vegar var einnig mjög áhugaverð barnamyndasýning Norræna hússins sem rúllaði daglega milli tvö og fjögur. Þetta var um það bil hálftíma prógramm (5 myndir) sem sýnt var stöðugt þannig að hver sem var gat komið hvenær sem er á þessum tíma og sest í hálftíma. Sniðugt fyrirkomulag sem vonandi verður eins að ári. Signý og Hugrún höfðu mjög gaman af þessu og kíktu svo niður í kjallara með mér þar sem kennd var hreyfimyndagerð (sem á ensku kallast "stop motion"). Sú kvikmyndagerð gengur þannig fyrir sig að tekin er mynd, ein í einu með vél sem er vel skorðuð (og hreyfist þar af leiðandi ekki á milli ramma). Myndefnið er síðan hreyft á milli rammanna þannig að augað skynjar hreyfingu þegar myndaröðin er sýnd (eða "spiluð"). Svona eru leirkallamyndirnar og margar brúðumyndirnar gerðar (hver man ekki eftir "Klaufabárðunum" frá Tékklandi?). En þetta er líka hægt að nota á svo margt, eins og teikningar (sem þróast ramma fyrir ramma) og fólk (sem virðist fyrir vikið hreyfa sig öðruvísi en það annars gæti). Það vill svo til að myndirnar á barnamyndasýningunni voru allar af þessari gerð, og sú eftirminnilegasta er til sýnis á Youtube. Hún heitir "Sorry I´m Late" og er mikill innblástur.

Engin ummæli: