Við áttum huggulega stund fyrir framan sjónvarpið í kvöld. "Kósíkvöld" felur í sér að Signý og Hugrún mega horfa á sjónvarpið og kúra þar þangað til þær sofna (sem er iðulega fyrir klukkan níu). Mánudagskvöldin eru tilvalin í þetta því þá er svo notalegt sjónvarp strax eftir fréttir - yfirleitt náttúrulífsþættir. Þeir virka róandi á stelpurnar en eru líka áhugaverðir útgangspunktar í alls konar spjall og vangaveltur.
Í kvöld var horft á ferðir Stephens Fry um Cortez-haf í leit að Steypireiði. Signý vissi að í þetta skiptið ætlaði hann að leita að hval (síðast var það páfagaukur). Hún spurði hvort það væri Hnúfubakur. Hún kannast við hann úr Dóruþáttunum og virðist muna sérstaklega vel eftir honum. Framburðurinn á heitinu vafðist eitthvað fyrir henni. Yfirleitt segir hún "hnúðubakur" en sagði í kvöld hálf-syfjuð, "lúðubakur". Hún var auðvitað fljót að leiðrétta það. Svo horfðum við áfram og sáum merkileg dýr - smokkfiska í stórri torfu með sína sogblöðkuarma. Þetta var heldur ókræsileg sjón og ég sá að Signýju leist eiginlega ekkert á þetta og spurði mig virkilega hvort þetta væri "plokkfiskur".
Ég held hún hafi verið svolítið fegin þegar ég leiðrétti misskilninginn :-)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli