miðvikudagur, september 22, 2010

Pæling: Í sparnaðarskyni

Mig dreymdi sérkennilega í nótt. Ég var staddur í verslun og bauðst að kaupa gallabuxur á 300 þúsund krónur og fannst boðið mjög girnilegt af því buxurnar höfðu áður kostað 1.3 milljónir. Ég var sem sagt að græða heila milljón á kaupunum. Ég var um það bil að rétta fram kortið þegar rofaði til í höfðinu og ég mundi eftir því að gallabuxur ættu ekki að kosta nema um 10 þúsund kall.

Þegar ég vaknaði tók ég þessu eins og hverri annarri dæmisögu. Dags daglega stendur maður frammi fyrir tilboðum og heldur að maður sé að spara með því að kaupa vöru á niðursettu verði en yfirleitt er maður bara að kaupa eitthvað sem maður hefði annars ekki keypt (kaupmaðurinn græðir). Það á líka við um magnafslátt. Stundum er betra að kaupa smærri umbúðir þó þær séu hlutfallslega dýrari vegna þess að umframmagnið nýtist ekki eða að það kallar á óþarfa umframneyslu. Klassískt dæmi er tveggja lítra gos sem hefur í för með sér meiri sykurneyslu en menn hafa gott af (og kostar að auki meiri pening) eða skemmist í meðförum þeirra sem kunna sér hóf (og kostar samt meiri pening).

Um daginn keypti ég, einu sinni sem oftar, kassa af íspinnum handa Signýju og Hugrúnu. Þetta eru tuttugu grænir íspinnar í bland við vanillu rjómaíspinna á um það bil 600 krónur. Mér reiknast til að pinninn kosti þá 30 krónur stykkið! Frábært að eiga heima í sparnaðarskyni. Málið er hins vegar að þær vita af þessu í frystinum og eiga það til að biðja um ís strax eftir heimkomu úr leikskóla. Ég spyr sjálfan mig að því hvort þetta sé þá ekki bara óþarfa sykurneysla plús peningaeyðsla. Ég var því mjög ánægður einn daginn þegar ég fann áþreifanlega fyrir sparnaði gegnum þessi kaup. Þá stóð beinlínis til að fara út í ísbúð en Signý óskaði eftir því að fá íspinna heima frekar - og Hugrún samsinnti. Samanlagt hefði ísinn úr ísbúðinni kostað jafn mikið og 20 íspinnar í pakka. Þarna borguðu kaupin sig upp á einu bretti! Ef þetta væri nú bara alltaf svona :-)

Engin ummæli: