þriðjudagur, september 07, 2010

Upplifun: Leynilegir tónleikar

Ég fór á afar sérstaka tónleika í gærkvöldi. Ég fékk "leynilegar" upplýsingar um að til stæði að halda tónleika að Gljúfrasteini. Þröstur, fyrrv. mágur, var svo almennilegur að hvísla þessu að mér símleiðis. Hann hefur starfað þarna í fjölmörg ár og setið marga tónleikana sem þarna hafa verið haldnir gegnum tíðina. En þessir voru óvenjulegir fyrir það að vera ekkert auglýstir og voru þess vegna aðeins fáeinir útvaldir á staðnum. Þarna var hins vegar saman komið einvalalið djassista (Eyþór Gunnars og fleiri góðir) að taka upp plötu. Þeir voru búnir að nota daginn í upptökur og fylgdu því ferli svo eftir með tónleikum, sem einnig voru teknir upp. Þetta var afar heimilislegt - enda er heimili Nóbelskáldsins notalegt í alla staði. Laxness var mikill smekkmaður, það er ljóst, og það var nánast eins og að stíga nokkra áratugi aftur í tímann að koma þarna inn. Ég kippti auðvitað Jóni Má með á þessa tónleika og nutum við þess að stíga þarna inn í þetta virðulega hús af þessu tilefni.

Engin ummæli: