miðvikudagur, september 01, 2010

Matur: Krækiber

Ég er orðinn krækiberjaóður. Við fórum í berjatínslu við Hafravatn í síðustu viku og komum heim með hauga af risastórum og ferskum berjum (sprettan er rosaleg í ár). Bláberin hurfu fljótt því enginn vill krækiber, - nema ég. Þau eru hins vegar svo stór og safarík í ár að ég nýt þess að tyggja þau og finna hvernig þau springa í munninum - með rjóma og sykri, að sjálfsögðu. Ekki er verra að hafa bláberjaskyr með. Hins vegar eru krásirnar svo miklar að ég er farinn að borða þetta á ýmsa vegu, bæði kvölds og morgna - fyrst með morgunmatnum (AB mjólk með rúsínum og krækiberjum - sem er merkilega góð blanda) og svo sem eftirrétt eftir kvöldmatinn (ber og rjómi - þetta klassíska). Ég veit í raun ekkert betra en að "bryðja" krækiber nú þegar myrkrið skellur á. Það er eins og að taka inn í eins konar örvæntingu síðustu leifarnar af uppsafnaðri sólarorku sumarsins til að geta stefnt svo ótrauður inn í myrkrið, útblásinn af andoxunarefnum.

Engin ummæli: