Eins og fram hefur komið ferðaðist fjölskyldan í Granaskjólinu minna í sumar en oft áður. Ein sumarbústaðarferð og ein tjaldgisting var allt og sumt sem hafðist upp úr því krafsinu - utan bæjarmarkanna. Tíminn í bænum nýttist hins vegar ágætlega til þess að feta ýmsar óhefðbundnar leiðir og gerast hálfgerður túristi á heimaslóðum, meðan flestir aðrir borgarbúar herjuðu á landsbyggðina.
Það sem Reykvískur túristi á heimaslóðum væri líklegastur til að gera er kannski þrennt: Að fara í hvalaskoðun, skreppa út í Viðey og fara í Bláa lónið. Við létum lónið reyndar eiga sig en skoðuðum hins vegar hvali og Viðey. Signý og Hugrún höfðu mjög gaman af því að sigla (höfðu ekki prófað það áður) og voru mjög uppi með sér yfir hvalnum sem þær sáu og sýndu hvölum í kjölfarið mikinn áhuga. Viðey vakti líka mikla lukku enda um að ræða ævintýralega vorferð með leikskólanum, með sjóræningjum og öllu tilheyrandi. Fjöruferðir voru nokkrar í sumar, þar á meðal ein sem endaði úti í sjálfri Gróttu þar sem skjannahvítur vitinn blasti við í öllu sínu veldi. En hann var því miður lokaður. Eltingarleikir í fjörunni bættu hins vegar vel upp svekkelsið yfir lokuðum vitanum. En ekki voru allar ferðir sumarsins tengdar sjónum, þó hann sé alltaf nærtækur. Gönguferðir um Öskjuhlíðina voru vinsælar og við uppgötvuðum svæðið "handan" við Perluna (vesturhlíðarnar) þar sem sjaldséð grasbreiða (hálfgert engi) teygir sig dágóðan spöl niður í skógarjaðarinn sem síðar opnast á ný og við blasa skotbyrgin úr seinna stríði. Afar fjölbreytt og skemmtilegt svæði. "Engið" þótti mér sérlega sjarmerandi staður fyrir börn til að hlaupa um á og leika sér. Annar staður vakti líka mikla lukku: Vatnsmýrin. Það liggja nefnilega göngustígar þvers og kruss án þess að mikið beri á. Besta aðgengið er frá stóru göngubrúnni yfir Hringbrautina (sem líka er gaman að skoða, bæði til að fara yfir og til að sjá umferðina ofan frá). Í Vatnsmýrinni er svo Norræna húsið, eins og menn vita, og þar hefur verið í sumar (og er enn, fram í september) sýning á eðlisfræðileikföngum og -þrautum. Þar er eitthvað fyrir alla, bæði yngstu börnin og okkur sem eldri erum, hvort sem það eru bjagaðir speglar eða vatnshljóðfæri. Brúin sem minnst var á áðan tengir síðan Vatnsmýrina eins og hún leggur sig við Hljómskálagarðinn. Þar eru nú margir spennandi krókar, þar á meðal leiksvæði sem liggur algjörlega í hvarfi frá almannaleið. Ekki skemmdi svo fyrir að sjálfur Hljómskálinn var með starfrækt kaffihús á neðri hæðinni (og opið upp i turninn) í allt sumar - fram að Menningarnótt. Þetta er svo sannarlega garður sem við eigum eftir að kanna betur á næsta ári. Svo voru strætóferðir líka vinsælar í sumar og var hvað eftirminnilegust gönguferð um Bústaðahverfið í afbragðs veðri. Það er nefnilega svo ótrúlega einfalt að hafa ofan af fyrir börnum á þessum aldri með því að sitja í vagninum, horfa á borgina út um gluggana og yfirgefa svo vagninn um leið eitthvað áhugavert blasir við (eins og til dæmis skemmtilegur leikvöllur). Þá er hægt að ganga um "framandi hverfi" og sjá það með augum barnanna. Það er mjög spennandi. Talandi um framandi svæði þá er Mosfellsbær fullur af áhugaverðum stöðum. Þar var útimarkaður á laugardögum í sumar. Í eitt skiptið könnuðum við "bakland" markaðarins og fundum vinsælt tjaldstæði og þegar enn lengra var skyggnst á bak við það gengum við fram á gerðarlegt og stórt tjald frá Mongólíu sem gert er út sem gistipláss (fyrir hvern sem er). Gaman væri að tékka á því einn daginn. En hvað um það, í Mosfellsbæ er fullt af skemmtilegum leikvöllum, nútímalegum og spennandi, enda mörg ný og nýleg hverfi þar í bæ. Svo er alltaf stutt í náttúruna. Síðasti staðurinn sem ég vildi minnast á í þessu yfirliti tengist líka náttúrunni en með allt öðrum hætti. Ég uppgötvaði nefnilega frábært lífrænt kaffihús í Garðheimum, Mjóddinni. Það er staðsett á svölunum fyrir ofan miðbik meginálmunnar. Þetta kaffihús er sérlega barnvænt og býður það að auki upp á dýrindis súpur í brauði og allt annað sem búast má við á slíkum stað - auk ódýrs íss í brauðformi og/eða uppáhellingu (hundrað kall hvort). Þaðan rölta allir út sáttir. Eins og staðan er í dag er vænlegt að hnýta aftan við slíka kaffihúsaferð smá rölt í norðurátt upp á hólinn stóra sem þar blasir við rétt hjá Reykjanesbrautinni og horfa þaðan niður í Elliðaárdalinn. Hóllinn er allur sundurnagaður og -grafinn eins og termítahaugur og þegar litið er niður má sjá litla svarta og hvíta hnoðra um víðan völl. Kanínurnar eru augnayndi en blasa samt við eins og martröð úr smiðju Hitchkocks, svo yfirþyrmandi er fjöldinn. Engu að síður frábær upplifun fyrir börnin.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli