þriðjudagur, október 19, 2010
Fréttnæmt: Ný tölva
Jæja, ég nú blogga ég af nýrri tölvu. Gerði mér lítið fyrir og keypti í gær eina netta Macbookfartölvu. Segi kannski ekki að ég hafi "gert mér lítið fyrir" því ég keypti mér notaða tölvu, þriggja ára gamla, á þriðjungsverði (miðað við nýja í dag). Var lengi með þetta í maganum. Ég lá yfir spjallsíðum Maclantic og fann þar þessa frábæru tölvu. Það er svo sem ekki hlaupið að því að kaupa hluti á þessum netmarkaði, áhættan er meiri að sjálfsögðu, svo ég setti það fram sem skilyrði að tölvan kæmist í gegnum "skoðun". Þeir hjá Apple bjóða upp á fría ástandsskoðun á tölvum eftir lokun á fimmtudögum. Frábær þjónusta hjá þeim. Tölvan reyndist pottþétt að mestu og aðeins smáræði sem þurfti að athuga. En Þvílíkur unaður að nota hana! Allt annað en borðtölvan. Þetta er svona eins og að bera saman skriðdreka og reiðhjól. Stundum þarf maður bara að fara út í búð, ef þið skiljið hvað ég á við, og þá er gott að eiga reiðhjól. Stóra borðtölvan mín mun áfram þjóna mér sem allsherjar "Jukebox" með sín hundruð gígabæti af tónlist. Einnig verður hún stórtæk sem gagnageymsla, ef til vill, og líklega notuð í ýmiss konar vinnslu (myndræna) og í að hýsa ljósmyndasafnið okkar. Hins vegar er þessi netta tölva notuð í allt þetta einfalda eins og að tékka á vefsíðum, skrifa tölvupóst og blogga. Nú hefur maður enga afsökun lengur. Á meðan hin tölvan fer í viðgerð (hún er enn mjög óáreiðanleg fyrir utan það að vera fyrirferðarmikil og hávær) get ég notið þess að "fúnkera" með þessa mér til halds og trausts. Þetta er ekkert annað en bylting fyrir allt heimilishaldið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Þetta er án efa innihaldsríkasta bloggið þitt til þessa!
Kv
Hallmundur
Nú er ég búinn að breyta færslunni. Þetta voru bara nokkrir bullstafir fyrst. Það gerði ég til að tryggja rétta dagsetningu. Ég sá fyrir mér að það yrði þægilegra fyrir textann ef ég vísaði á gærdaginn þegar ég minntist á tölvukaupin. Ég hafði hins vegar ekki tíma til að skrifa þann dag svo ég "tryggði" bara dagsetninguna. Þetta geri ég stundum.
En hver er Hallmundur, annars?
Skrifa ummæli