laugardagur, desember 03, 2005

Matur: Maraþon smákökubakstur

Í dag eyddum við Vigdís kvöldinu heima hjá okkur í félagsskap Bjarts og Jóhönnu (ásamt Friðriki litla). Hugmyndin var að hafa það huggulegt saman og baka smákökur, sem tókst með ágætum. Okkur tókst, með öðrum orðum, að baka fjórar sortir en gátum samt gefið okkur tíma til að panta pítsur og horfa á fréttir saman á milli sorta. Þar sem fjórar sortir eru frekar mikið nú til dags finn ég mig knúinn til að greina frá því hvað það var sem gerði gæfumuninn í þrönga eldhúsinu okkar í Granaskjólinu. Í fyrsta lagi ákváðum við að hafa vaktaskipti þannig að tveir til þrír slökuðu á í stofunni á meðan restin af mannskapnum renndi í nýja skúffu. Oftast þurfti ekki nema einn í einu til að sinna úttektunum, eins og við kölluðum ofnskammtana. Þær Vigdís og Jóhanna höfðu um margt að ræða enda barneignir allsráðandi á báðum bæjum þessi misserin. Við Bjartur tókum því að okkur eldhússtörfin og hituðum kjallaraíbúðina með ofninum þar sem hann var opnaður í sífellu. Hitt atriðið sem ég vil gjarnan greina frá sem úrslitahagræðingu í þessum vel heppnaða jólabakstri er að gestir okkar mættu nefnilega með heimatilbúið deig fyrir tvær sortir. Þær runnu því löðurmannlega gegnum ofnskúffuna á meðan fyrirhafnarlítið var hrært í hinar. Hagræðingin mæltist ákaflega vel fyrir og var stefnt á að hafa sama háttinn á að ári ef sams konar bakstur ber að höndum, jafnvel hafa allt deig tilbúið fyrirfram og hafa það svo náðugt í jólalyktinni.

Nú bjóðum við sem sagt upp á jólasmákökur og með'ðí á aðventunni, - fyrir þá sem eiga leið hjá: piparkökur, spesíur, hnetusúkkulaðismákökur (Gestgj. 11/2004) og döðludrauma (Mbl-matarsérrit 5/2005). Þær tvær síðastnefndu eru óhefðbundari en spesíurnar og piparkökurnar, en einnig í hollari kantinum, enda báðar úr haframjölsdeildinni. Önnur er bragðbætt með sykri, döðlum og kókosmjöli en hin með dökku súkkulaði, grófu hnetusmjöri og þykku sýrópi. Eftir þessu hnossgæti er þess virði að falast. Sá sem á heima í útjaðri Reykvískrar byggðar og á af þeim sökum nokkuð erfitt með að keyra vestur fyrir KR-völl þarf hins vegar ekki að örvænta. Í Hafnarfirðinum má finna nákvæmlega eins kökur :-P (sleikjútumkall). Gleðilega aðventu.

Engin ummæli: