mánudagur, desember 19, 2005

Sjónvarpið: Flóðafólkið

Ég sat í kvöld með litlu dóttur okkar Vigdísar í fanginu og horfði á áhrifamikla heimildamynd um eftirlifendur hamfaranna í Acheh-héraði í Indónesíu. Lítið var staldrað við sjálfan hamfaradaginn en í staðinn var eftirleikurinn skoðaður þeim mun betur. Athyglisvert var að fylgjast með fólki reyna eftir fremsta megni að þrauka andlega, reyna að byggja upp nýtt líf á rústunum (einn bjó í hálfu húsi á meðan annar sat uppi með skipsflak í þakinu). Í þættinum var einnig var gaumgæfilega farið í saumana á friðarferli stríðandi aðila í fjallahéruðunum (sem í þrjá áratugi hafa barist fyrir sjálfstæði Acheh frá yfirvöldum í Djakarta). Einn hermaðurinn var sérstaklega í brennidepli þar hann hafði verið við víglínuna frá upphafi stríðsins, síðan hann var þrettán ára. Hann fylgdist gaumgæfilega með friðarferlinu gegnum konu sína sem vann á akri í frjósömum dalnum. Þau notuðu til samskiptanna nákvæmlega eins GSM-síma og við Vigdís eigum (þetta er lítill Nokia-heimur). Samningaviðræður eru sem sagt að nást í gegn, einhvers staðar í Finnlandi, á meðan okkar maður berst enn fyrir málstaðnum í fjallahéruðunum, en vonast ásamt konu sinni eftir friði. Nokkrum dögum fyrir undirskriftina verður hann svo fyrir banvænni byssukúlu. Þessar hörmungar horfði ég á gaumgæfilega og dóttur mína til skiptis og fannst mjög átakanlegt að upplifa hvað það getur verið stutt öfganna á milli.

Engin ummæli: