Við héldum uppteknum hætti í gær og færðum heimili okkar í enn frekari jólabúning. Í þetta skiptið snerist umstangið um jólalykt og nett matarboð. Vigdís óttaðist nefnilega að fá ekki tækifæri til að borða hangikjöt þessi jólin (sem er víst lítið sniðugt á meðan brjóstagjöf stendur yfir) svo hún hristi fram úr erminni eitt lítið og nett jólaboð. Hangikjöt var soðið dágóða stund á meðan ég keypti, sauð og skrældi kartöflur. Sirrý tengdó bjó til hvítan jafning. Við þrjú hjálpuðumst að en fleiri kíktu í heimsókn og ýmist önduðu að sér jólunum eða tóku til matar síns. Minnti mann á litlu jólin, eins og þau eru haldin í skólum landsins. Ég sting upp á þessu sem hefð fyrir komandi fjölskylduár. Um að gera að teygja aðventuna svolítið.
Í dag kíktum við Vigdís til ljósunnar og allt virðist vera með felldu. Stúlkan er eitthvað að reyna að skorða sig en nær því líklega frekar illa þar sem hún flýtur í svo myndarlegri "sundlaug", eins og þær kölluðu það. Hún vonaðist til þess að fæðing gengi í garð fyrir jól en benti okkur þó á að taka því rólega fram að næstu helgi. Fram að þeim tíma myndi dóttir okkar vera meðhöndluð með aukinni varfærni, þó svo að allt líti mjög vel út. Sjáum hvað setur. Kannski eigum við drjúga viku eftir. Að minnsta kosti virðist Vigdísi líða mjög vel þessa stundina.
Við fórum eftir þessa heimsókn niður í bæ og keyptum okkur mat á "Næstu grösum", svona til að vega upp á móti saltinu í gær. Vigdís er sérlega viðkvæm þessa dagana og taldi sig sjá skýran mun á bjúgmyndun eftir matarboðið. Ég er að sama skapi lítið hrifinn af kjöti (enda lét ég aðeins upp í mig þunna flís á móti meðlætinu) og hafði því líka geysilega gott af heilsufæðinu. Eftir gómsæta magafylli færðist yfir okkur þessi líka mikla værð og um miðjan dag sofnuðum við mjúklega út frá þægilegri hugleiðslutónlist. Þar með hafði læknisráðinu um hvíld verið framfylgt mjög samviskusamlega.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli