fimmtudagur, janúar 06, 2011

Áætlun: 2011 verður fjallgönguár

Í gær kíkti ég á fund hjá Ferðafélagi Íslands ásamt Jóni Má. Okkur leist nefnilega vel á metnaðinn hjá þeim. Þeir í FÍ eru að smala saman gönguhóp til að klífa 52 fjöll á árinu, eitt á viku, sama hvernig viðrar. Einnig var í boði 12 fjalla prógramm (eitt á mánuði), sem okkur Jóni leist nú betur á miðað við bindinguna af hinu. Eftir spjall á kaffihúsi eftir á var hins vegar ákveðið að fara á mis við hópeflið í FÍ. Við vildum helst fara á 12 fjöll á eigin tíma og hraða, tveir eða fleiri, en nota hins vegar uppsetta áætlun Ferðafélagsins sem áminningu og hvatningu. Maður er jú alltaf að spara (þátttakan í hópnum kostaði tugi þúsunda yfir árið) og tíminn er líka naumur. Það skiptir öllu að vera sveigjanlegur - svo lengi sem maður notar það ekki sem afsökun til að gefast upp.

Hér er sem sagt komið einhvers konar áramótaheit og það tilkynnist hér með að ég stefni á 12 fjallstoppa á árinu. Segi frá afrakstrinum hér jafn óðum og sýni myndir.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Steini
Þetta verður spennandi! Ég ætla að gera lista yfir mínar tillögur og við ræðum það yfir rjúkandi kaffi í næstu viku.
kv
JónMár