laugardagur, janúar 01, 2011

Afþreying: Innrömmuð áramót

Áramótin gengu mjúklega í gegn hér á bæ. Við fórum bara snemma að sofa og tókum því rólega. Ég vakti reyndar aðeins lengur en Vigdís því ég ákvað að horfa á DVD disk sem ég var með í láni með klassísku efni úr smiðju Rowan Atkinson (sem er best þekktur sem Mr. Bean). Á þessari mynd takmarkar hann sig ekki við Mr. Bean persónuna heldur reytir hann af sér grín í ýmsum gervum og hlutverkum uppi á sviði. Þetta horfði ég mikið á fyrir um fimmtán árum síðan þegar ég vann á sambýli í Kópavoginum. Einn íbúanna átta þetta uppistand Atkinsons og mér eru margir brandaranna enn í fersku minni. Ég hló mikið síðastliðna nótt þegar ég rifjaði þetta allt saman upp. Væri satt að segja alveg til í að endurtaka leikinn um hver áramót héðan í frá. Fastur liður.

Annars rammaði ég áramótin inn með þessu og annarri afþreyingu rúmlega sólarhring fyrr. Þá fór ég í bíó á TRON. Mæli eindregið með henni við alla vísindaskáldsagnanörda og þá sem unna glæsilegri kvikmyndaupplifun. Nú er ég fyrst og fremst að tala um veislu fyrir auga og eyra á meðan sjálf sagan og persónusköpun er síðri. En þvílík veisla!

Engin ummæli: