sunnudagur, desember 26, 2010

Pæling: Jólaafþreying; það besta og það versta.

Nú þegar jólin eru að baki er ekki úr vegi að velta fyrir sér til hvers allt umstangið var. Þetta gengur yfir mjög hratt og í ár má segja að jólin séu óvenju stutt. En jólin eru ekki bara þessir örfáu dagar þegar nánar er að gáð. Þetta er líka spurning um að njóta aðventunnar, tilhlökkunarinnar og ljósanna sem fylgja jólunum og eru logandi nokkrar vikur í senn hjá flestum. Margir ná engan veginn að njóta þessa tímabils sem skyldi og láta jólin spenna sig upp. Okkur tókst hins vegar ágætlega upp í þessum efnum núna, þökk sé góðri jólaafþreyingu.

Jólaalmanakið í ár var fyrsta flokks. Á hverjum einasta degi var sýndur þáttur frá aðventunni í "Snædal", norskri seríu sem var nokkuð í anda "Himmelbla" en ætlað yngri markhópi. Hver þáttur glímdi markvisst við einhver grunngildi, eins og gildi þess að tala ekki illa um náungann, um að hlaupast ekki undan ábyrgð, um að þora að taka áhættu í lífinu og þar fram eftir götunum. Sögurnar voru alltaf nógu einfaldar til þess að fimm ára nái að lifa sig inn í atburðarásina en nógu raunsæir og djúpir til að skírskota til tilfinninga fullorðinna. Kannski svolítið eins og Húsið á sléttunni á sínum tíma. Alla vegana var þetta fastur punktur í aðventunni hér á bæ og hún Signý hlakkaði sérstaklega til hvers þáttar og lagði hiklaust til hliðar aðra afþreyingu á meðan.

Þetta stóð upp úr þeirri afþreyingu sem var í boði á aðventunni, hiklaust, og minnir mann hastarlega á hvað íslenskt leikið efni er aftarlega á merinni (hver hefur annars nennt að horfa á jóladagatalið undanfarin ár?). En svo að maður tefli saman andstæðum þá verð ég taka fram það sem mér þykir vera versta afþreyingin þetta árið, sem endranær. Það eru Frostrósir og allar þessar glamúrtónleikauppákomur sem voru í boði, hvort sem það voru Björgvin og félagar eða aðrir. Í mínum huga eru tónleikar af þessu tagi einmitt til þess fallnir að spenna fólk upp. Ég meina, það er ekkert snoturt, einlægt eða einfalt við þetta. Þetta er þaulskipulagt og flókið prógramm þar sem helstu látúnsbarkar landsins koma saman til að berast á í gala-klæðnaði við undirspil stórrar hljómsveitar og kórs, með öllu því glimmeri sem því fylgir. Það er beinlínis gefið í skyn að jólin gangi út á þessa fullkomnun, eins og risavaxið ofskreytt silfurjólatré. Þetta finnst mér vera lágkúrulegt og flokkas því hjá mér undir það lélegasta í afþreyingu á aðventunni. Líður fólki vel eftir svona tónleika? Ef ég hefði skellt mér á jólatónleika þá hefði það verið venjulegir kórtónleikar eða eitthvað enn lágstemmdara (eins og Pál Óskar og Móníku) eða fundið einhvern kammerkór á götuhorni. En Frostrósir, nei takk. Með fullir virðingu fyrir frábærum flytjendum.

En til að enda ekki á neikvæðu nótunum langar mig að rifja upp jólatónlist sem virkar alltaf jafn þægilega á mig ár eftir ár. Það er hið gamla og góða "Do They Know it´s Christmas?". Hvað er það við þetta lag? Bernskuminning? (ég var tólf ára þegar lagið kom út). Eða er það hlýlegi hitabeltishljómurinn sem virkar alltaf eins og endurómur úr fjarlægri álfu? Eða er það kaldhæðnin í laginu sem alltaf skín í gegn: "Tonight, thank God, it´s them, instead of you!", sem Bono hikaði lengi við að syngja. Eða er það spennan og eftirvæntingin í flutningnum sem gerir lagið svo klassískt? Flytjendur voru meira eða minna gagnteknir af því sem var að gerast enda hafði ekkert í þessum dúr verið reynt áður. Að minnsta kosti skilar þetta sér allt, á hverju einasta ári.

En ef ég ætti að velja mér gamalt jólalag til að halda upp á (frá því fyrir minn tíma) þá myndi það hins vegar vera The Little Drummer Boy. Það virðist bara ekki vera hægt að klúðra þessu lagi, enda laust við alla væmni og tilgerð, og fjallar um eitthvað allt annað en jólasveina, jólastress og jesúbarnið (sem er óneitanlega svolítið frískandi á aðventunni). Sérstaklega held ég upp á flutning the Kings´ Singers og svo auðvitað flutning heiðursmannanna Bing Crosby og David Bowie. Þar er eitthvað pínulítið vandræðalegt við flutninginn sem gerir hann svo skemmtilegan, eins og þeir viti ekki hvað þeir hafa hvorn annan, en þetta varfærnislega í flutningnum gerir hann einmitt svo viðkunnanlegan.

Engin ummæli: