sunnudagur, desember 26, 2010

Upplifun: Snjókarlinn

Þá eru jólin að baki. Snjórinn féll tímanlega og skolaðist burt í dag, kannski full snemma. Við nýttum hins vegar gærdaginn mjög vel. Það var eiginlega hinn fullkomni jóladagur. Þá var garðurinn þakinn nýföllnum snjó og stutt í þíðuna þannig að hann var frekar rakur og tilbúinn til meðhöndlunar. Við réðumst strax í að rúlla upp snjókarli og fórum klassísku leiðina: bjuggum til harðan snjóbolta og veltum honum eftir lóðinni. Í kjölfarið af boltanum lá mjög áberandi græn slóð því snjórinn hafði ekki legið lengi. Þegar maður hugsar út í það þá er eins og þessi snjór hafi fallið beinlínis til að gera okkur kleift að búa til snjókarl á jóladag. Snjókarlinn var í fullri stærð og fékk sín hefðbundnu klæði: húfu (jólasveinahúfu), trefil og myndarlega gulrót fyrir nefið. Hann brosti sáttur við sig þegar við röltum inn.

Við vorum þrjú í þessu á meðan Vigdís sýslaði ýmislegt inni, reddaði okkur gulrót, trefli og hönskum eftir því sem við átti, þannig að þetta var samvinnuverkefni allra. Svo beið okkar inni heitt súkkulaði og smákökur með rjóma. Það tilheyrir á jóladag. Signý og Hugrún settust þá við sjónvarpið og horfðu með mér á uppáhalds jólamyndina okkar: The Snowman. Þetta er töfrandi saga (upphaflega barnabók) og er frábærlega komið til skila sem teiknimynd. Þetta er saga af snjókarli sem vaknar til lífsins á jólanótt. Við svífum með snjókarlinum á vit ævintýranna og tökum þátt í veislu með jólasveininum sem bíður á Suðurpólnum áður en yfir lýkur (þ.e.a.s. áður en svifið er til baka og snjókarlinn bráðnar morguninn eftir). Stelpurnar horfðu stoltar út í garð öðru hvoru og báru snjókarlana saman með reglubundnu millibili. Þær voru ekkert leiðar yfir því þegar hann bráðnaði í dag enda vita þær fullvel að það eru örlög snjókarla, jafnvel þeirra sem vakna til lífsins.

Engin ummæli: