þriðjudagur, desember 14, 2010

Tímamót: Signý fimm ára

Í gær átt Signý afmæli. Nú er hún orðin fimm ára og var býsna stolt af því. Við skiptum afmælinu hennar í tvennt vegna plássleysis, eins og svo oft áður. Annars vegar kíktu ættingjar í heimsókn um helgina, án formlegs boðs, bara hver á sínum tíma. Nema mamma og pabbi. Þau buðu okkur bara heim í staðinn í mat á sunnudaginn. Bara frjálslegt, þægilegt og óformlegt. Síðan var daginn eftir haldið formlega upp á tímamótin með vinum úr leikskólanum, á sjálfan afmælisdaginn.

Ákveðið var að bjóða þremur vinkonum í heimsókn eftir leikskóla. Það var bara eins einfalt og hugsast gat. Fyrir utan afmæliskökuna (súkkulaðiköku) var fyrirhöfnin bara tiltekt. Smákökur voru dregnar fram í dagsljósið, ein aukakaka (með Pekanhnetum) var keypt í Hagkaupum og svo lumað á íspinna í lokin. Signý var hæstánægð með þetta allt saman enda eru þær vinkonurnar mjög fínar saman. Eina stundina datt þeim i hug að fara að njósna um mig og fóru þá í felur úti um allt. Það var allur prakkarskapurinn. Eftirminnilegast fannst mér hins vegar að fylgjast með þeim horfa á jóladagatalið. Þær voru allar sem límdar á skjánum og rétt töluðu öðru hvoru og þá bara um efni þáttarins. Eitt skiptið álpaðist Hugrún hins vegar til að standa upp og horfa á þáttinn standandi rétt fyrir framan skjáinn. Þá sagði ein þeirra, kurteislega: "Hugrún, ekki vera fyrir sjónvarpinu". Hún var hálf hissa, steig til hliðar og sagði svo bara: "Fyrirgefðu!". Svona var þetta pent.

Signý var rosalega ánægð með veisluna og hafði orð á því hvað þetta var gaman. Þá átti hún hins vegar eftir að taka fleiri pakka sem biðu þangað til hún og Hugrún voru búnar að hátta sig og tannbursta. Þetta voru pakkar frá okkur foreldrunum og svo frá Ásdísi frænku og fjölskyldu. Í einum pakkanum var DVD-mynd: Where the Wild Things Are sem er byggð á klassískri barnabók sem stelpurnar þekkja vel. Þær voru mjög spenntar fyrir henni og fengu að lokum smá "kósí" stund fyrir framan sjónvarpið og horfðu þá á myndina í ró og næði. Bara huggulegur fimm ára afmælisdagur og Signý fór mjög sátt að sofa.

1 ummæli:

Begga frænka sagði...

Frábært... ljúft...