sunnudagur, desember 05, 2010

Tónlist: S/H Draumur á miðnætti

Ég fór á rokktónleika í gær í fyrsta skipti í mörg ár. Þá á ég við ALVÖRU rokktónleika, sveitta, troðna, háværa. Það voru S/H Draumur sem stóðu fyrir brjálaðri stemningu á Sódómu. Gamli góði Draumurinn, sem lagði upp laupana fyrir hartnær tuttugu árum, með Dr. Gunna innanborðs. Þetta er lítið þekkt rokkhljómsveit frá miðjum níunda áratugnum sem bjó við fremur þröngan aðdáendahóp á sínum tíma. Síðan hljómsveitin hætti í kringum 1990 hefur hún öðlast goðsagnakennda stöðu í rokksögunni. Að mínu mati gáfu þeir út bestu hreinræktuðu rokkskífu sem komið hefur út hér á landi. Það var árið 1987 þegar platan Goð kom út og nú stóð til að endurflytja hana í heild sinni ásamt öðrum lögum sem gefin voru út bæði á undan og á eftir.

Hvernig voru þá tónleikarnir? Staðurinn var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Sódoma er á eftri hæðinni á gamla "Gauknum" fyrir þá sem það þekkja. Hann er þröngur, sem er bæði kostur og galli þegar rokktónlist er annars vegar. Hins vegar fannst mér ægilegt að það skuli ekki vera boðið upp á fatahengi! Þarna voru inni menn í jakkafötum eða frökkum í kófinu, af því þeir gátu ekki annað. Ég meina, hvað áttu þeir að gera? Það var kalt úti. Ömurlegt. Ég var upphaflega í þykkri peysu utan yfir síðerma nærbol og regnjakka þar yfir. Þegar í ljós kom að staðurinn vildi ekki þjónusta mig að þessu leyti stökk ég aftur út, skokkaði í fimm mínútur út í bíl, og kastaða heitari klæðunum af mér þar. Kom skokkandi til baka á síðerma nærbolnum. Heitur af hlaupunum, til í smá rokk.

Það fór ekkert illa um mig, sem betur fer, en hljómburðurinn hefði mátt vera betri. Það var dúndrandi árás fyrir skilningarvitin að standa uppi við sviðið. Þangað fór ég strax og naut mín afar vel en dró mig hins vegar í hlé til að hvíla eyrun aðeins. Síðasta hálftíman var ég hins vegar kominn til að vera og hentist fram og til baka með öðrum jafn áköfum aðdáendum sveitarinnar. Það var ekkert smá kraftur í bæði bandinu og áhorfendum! Gamla góða "slammið" tók sig upp í einhverri dýrðlegri nostalgíu uppi við sviðið. Allt í kring voru kunnugleg andlit, bæði persónulegir kunningjar og vinir auk andlita sem ég man eftir frá þeim tiíma þegar ég sótti rokktónleika reglulega. Sama gamla grúppan. Hljómsveitin sjálf stóð sig líka vel þrátt fyrir að það hafi vantað örlítið upp á snerpuna frá í gamla daga en var að mínu mati aukaatriði í sjálfu sér. Það var staðurinn og stundin sem stóð upp úr. Og sjálf tónlistin.

Á leiðinni út staldraði ég við á þröskuldinum og spjallaði örlítið við dyravörðinn. Honum varð starsýnt á uppgufunina sem stóð upp úr hvirflinum og hrópaði hátt: Heyrðu, það bara rýkur upp úr þér!! Þannig gekk ég funheitur í áttina að bílnum, gegnum frostkalt loftið, klukkan orðin eitt. Daginn eftir verkjaði mig hér og þar í líkamann og suðið yfirgaf ekki eyrun næsta sólarhringinn.

Engin ummæli: