Signý missti sína fyrstu tönn á þriðjudaginn. Tönnin var búin að vera laus í rúmlega viku. Það er eiginlega dæmigert fyrir hana að ná að "geyma" hana svo lengi því þannig eru hún. Til dæmis, ef hún fær eitthvað gott að morgni dags, eins og rúsínur, þá er hún líkleg til að geyma þær þangað til hún mætir í leikskólann til að geta sýnt vinum sínum. Góðan mat getur hún sömuleiðis treinað sér auðveldlega. Hún er lengi að borða mat sem hún er hrifin "af af því að hann er svo góður". Að sumu leyti má segja að hún sé mjög öguð að eðlisfari. En nákvæm líka. Hún gagnrýnir sjálfa sig óspart þegar hún gerir mistök. Það gerir hún með að missa móðinn og finnast hún sjálf vonlaus. Fullkomnunaráráttan getur virkilega verið til vansa. En lausu tönnina passaði hún sem sagt afar vel og lengi. En tönnin varpar líka skemmtilegu ljósi á systkinasamskiptin. Um leið og Signý tilkynnti um það að hún væri með lausa tönn sagði Hugrún: "Ég er líka með lausa tönn". Nema hvað! Hugrún notar Signýju stöðugt sem viðmið eins og algengt er með náin systkini. Metingurinn er hins vegar sjaldnast neikvæður. Þegar þær keppa, til dæmis í kapphlaupi, þá er Signý yfirleitt á undan og undirstrikar það náttúrulega með því að segja: "Ég vann!" Þá kemur Hugrún nokkrum skrefum á eftir henni og gerir nákvæmlega eins: "Ég vann líka!" Þannig er Hugrún. Hún er ekkert að flækja hlutina. Signý veltir hins vegar tilverunni mikið fyrir sér og tekur afar nærri sér ef henni finnst hún ekki vera að standa sig.
En tönnin er búin að vera mikið umhugsunarefni. Það vill svo til að Vigdís var í nokkurra daga ferðalagi á þessum tíma og kom heim einmitt þegar tönnin féll. Það fannst henni afar táknrænt. Sem er líka lýsandi fyrir hana. Hún á það til að leita að táknum og fyrirboðum víða og hrífst alltaf af þvi sem samræmist skemmtilega, eins og þessu. Sem sagt, það lögðu allir sína merkingu í tönnina. En hvað um mig þá? Ég segi bara "Úff!" Mér finnst tilhugsunin um fallandi tennur frekar skuggaleg. Það er bara synd af svona fallegar tennur skuli þurfa að losna. En sú mynd sem situr efst í huga mér er þessi fallega tönn. Hún var alveg skjannahvít og greinilegt að tannhirðan er í lagi á þessu heimili :-)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
já hún er í fínu lagi sem og önnur umhirða og uppeldið sem slíkt.
Það mættu fleiri vera eins passasöm og þið Vigdís.
kv.Begga frænka
Skrifa ummæli