þriðjudagur, nóvember 09, 2010

Uppákoma: Afgreiðsla í Krua Thai

Við Vigdís ákváðum að panta okkur tælenskan mat hjá Krua Thai (Tryggvagötu). Við stóðum í ströngu og gerðum vel við okkur; pöntuðum þrjá rétti. Einn þeirra var fiskréttur (hitt voru djúpsteiktar rækjur og einhver kjötréttur, fyrir Vigdísi). Ég skutlaðist eftir matnum og var snöggur að því, enda svangur. Upp úr dúrnum kom hins vegar rækjurétturinn og tveir kjötréttir. Þá fór ég á netið til að skoða hvort ég hefði gert einhver mistök í pöntun og sá mér til undrunar að rétturinn minn var "fiskur" samkvæmt íslensku skýringunni en "beef" (nautakjöt) samkvæmt ensku skýringunni . Ég hringdi undir eins og benti þeim á þessa villu sem augljóslega staðfesti að þeir hefðu gert mistök. Ég þurfti að eyða talsverðum tíma í að útskýra þetta og um tíma fannst mér eins og starfsmaðurinn væri að taka niður nýja pöntun. Þegar ég hafði klippt skilaboðin niður smáar einingar, í eins konar skeytastíl, skildi starfsmaðurinn loks hvað ég var að meina, skaust á bak við (til að tékka á vefsíðunni) og kom hlæjandi til baka. Nú átti ég von á því, samkvæmt íslenskum hefðum, að fá einhverjar sárabætur fyrir þessi leiðu mistök því ég sá fram á að þurfa að skutlast aftur (staðurinn býður ekki upp á heimsendingu). Nei, þá var ég spurður: "Geturðu komið með hinn réttinn!". Ég var svo hissa að ég sagði ósjálfrátt "já" en fattaði um leið og símtalinu lauk að þetta væri algjör vitleysa. Ég var reiður sjálfum mér og hringdi aftur og reyndi að útskýra að ég ætti ekki að þurfa að koma með hinn réttinn til baka því þeir bera ábyrgð á mistökunum. Þeir ættu að koma til móts við mig með einhverjum hætti. En það komst einhvern veginn ekki alveg til skila gegnum símann þannig að ég snöggreiddist og skellti á.

Niður eftir skutlaðist ég og var nokkuð heitt í hamsi og reyndi að tala sjálfan mig niður. Undirbjó einfalda útskýringu á því hvernig þetta ætti að ganga fyrir sig. Þegar á staðinn var komið var fiskurinn tilbúinn. Ég var mjög yfirvegaður þegar á hólminn var komið, en ákveðinn, og bað um starfsmanninn sem hafði talað við mig í símann. Ung stúlka kom þá lafhrædd (að því er virtist). Mér tókst í þetta skiptið að útskýra hvernig staðurinn ætti að koma til móts við mig fyrir eigin mistök. Þá ýtti hún nautakjötsréttinum varlega að mér, hikandi, og benti mér á að ég mætti alveg hafa hann líka. Hún var greinilega fegin þegar ég sætti mig við þessa lágmarksmálamiðlun. Síðan afsakaði ég mig fyrir að hafa reiðst svo snögglega í símanum og ég kvaddi kurteislega.

Eftir á veltum við Vigdís þessu fyrir okkur. Þetta er dæmi um spennu á milli ólíkra þjóðfélagshópa þar sem upp getur komið misskilningur (eða bara takmarkaður skilningur). Líklega er það vinnuregla á þessum stað að kúnninn skili rétti ef hann kvartar yfir honum en í þessu tilviki var þessu öðruvísi farið. Reynslulítill starfsmaður dettur auðveldlega inn í vélrænt vinnulag án þess að skoða samhengið hverju sinni. En ég var feginn því að hafa ekki verið með leiðindi og læti á staðnum þegar inn var komið. Það hefði ekki haft neitt upp á sig nema óþægindi á báða bóga.

Nú verður hins vegar gaman að sjá hvað þeir eru lengi að laga vefsíðuna síná (sjá rétt númer 37 á maðseðlinum). Þangað til geta óprúttnir séð sér leik á borði.

Engin ummæli: