Signý var kostuleg á laugardaginn var. Hún horfði á Spaugstofuna með okkur (sem hún er farin að þekkja ágætlega - og kallar bara "fréttir"). Þegar atriðið "Hvar er Árni?"um Árna Mathiesen var sýnt (þar sem líkt var eftir teiknimyndabókunum "Hvar er Valli") var mín alveg í leiðslu. Hún tók ekki eftir neinu í kringum sig, var með galopinn munninn og annar vísifingurinn hékk á neðri vörinni. Röddin hans Pálma Gests og allir barnafrasarnir náðu henni gjörsamlega. Þegar atriðinu loks sleppti var eins og leiðslan rofnaði og hún leit brosandi í kringum sig.
Í morgun rifjaðist þetta upp því einhverra hluta vegna sagði Signý upp úr þurru, þegar ég var nýbúinn að klæða hana: "Hvar er Árni?". Hún var ekki spyrjandi á svipinn heldur glettin. Það sem mér finnst merkilegt er að hún virtist gera sér grein fyrir "gríninu" en ekki er síður athyglisvert að hún skuli yfrilett muna eftir þessu enn þá.
Annars muna börn ótrúlegustu hluti. Alls kyns smáatriði sem þau taka eftir, eins og þegar eitthvað vantar. Um daginn horfði hún á Walt Disney teiknimynd með Gúffa, og tjáði sig um það að hann væri í nýjum fötum - nokkuð sem hvarflaði ekki að mér fyrr en hún benti mér á það (liturinn var annar á peysunni en venjulega). Eins muna börn ótrúlega kringumstæður á stöðum sem vekja lukku hjá þeim, jafnvel þó þau hafi bara verið þar einu sinni, og rata nákvæmlega um ef eitthvað minnisstætt átti sér stað þar áður. Eins taka þau eftir því þegar maður keyrir óvenjulega leið á milli staða.
Líklega eru þau vökulli en við sem eldri erum, svona eftir á að hyggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli