Það er svolítið undarlegt að Hugrún skyldi hafa veikst í vikunni, í fyrsta skipti í marga mánuði, því hún fór í 18 mánaða skoðun á mánudaginn var. Þá gátum við lýst því yfir að hún hafi verið stálhraust lengi. Strax um kvöldið fékk hún hita. Reyndar fékk hún sprautu, en það var líklega ekki það sem olli hitanum því hún átti ekki að hafa þannig áhrif fyrr en 5-10 dögum seinna (sem er þá á næsta leyti núna). Maður er alltaf uggandi yfir blöðrubólgueinkennum, sem eru lágur einkennalaus malllandi hiti í lengri tíma í senn. Miðað við hvað þetta hjaðnaði fljótt (á tveimur dögum) bendir allt til að hér hafi verið á ferðinni eitthvað léttvægt úr leikskólanum.
Í skoðuninni kom Hugrún sérlega vel út. Hún var vigtuð og mæld í bak og fyrir (man ekki tölurnar núna) en mér er minnisstætt að hún var ekki lögð á bekkinn til mælingar, eins og maður er vanur, heldur stóð hún eins og fullorðin manneskja upp við vegg og var hæðarmæld þannig. Við vorum spurð út úr ýmsum þroskaþáttum, eins og hvort hún setji saman kubba, hvort hún liti og veiti hlutum í kringum sig eftirtekt annað slíkt. Að sjálfsögðu. Svo spurði hún okkur um það hvað hún noti mörg orð að jafnaði. Þá var ég brattur á því og sagði að það væri líklega yfir hundrað orð! Mér sýndist það fá pínulítið á hjúkrunarkonuna og hún svaraði því að þá hlyti hún að vera býsna bráðþroska. Henni sýndist það reyndar, og gerði á engan hátt lítið úr staðhæfingunni, en ég fékk smá bakþanka eftir á. Það hefur lengi staðið til að telja orðin en ekki orðið af því til þessa. Af því tilefni ætla ég mér að tileinka þessa færslu orðaforða Hugrúnar.
Fyrir nokkrum mánuðum tók ég eitthvað saman (sjá hér). Í þetta skiptið er orðaforðinn nokkuð lengri og því prýðilegt ástæða til að flokka orðin eftir skyldleika þeirra. Ég set framburðinn hennar Hugrúnar inn í sviga ef hann víkur frá hefðbundnum framburði. Hins vegar set ég spurningamerki innan sviga við orð sem ég man ekki framburðinn á eða mig minnir að séu komin (en hef ekki heyrt lengi).
Persónur: Pabbi, Mamma, Signý/Systir (Diddí/Diþdí), Ásdís (?), Sæunn (?)
Ýmis samskiptaorð og upphrópanir: Takk (datþ), vei, vá, ái, frá! (bá), frá! (ba-bú), bless (beþþ), bæ, hæ, halló (alló)
Ábendingarorð: Svona (þvona), Þetta (dedda), búið, já, nei
Líkamshlutar: Nef (neþ), auga, munnur (?), eyra (eyja), hárið (?), nafli (blabli), magi (bubba), tá/tásur (dá/dáþu)
Hlutir (innandyra): Ljósið (lóþþi), stóll (dól), bað (baþ), gluggi (dlutli)
Leikföng og smáhlutir: snuð (dudda), tannbursti (da-dudda), leikföng (dóti), bolti (botti), púslið (dlútli)
Föt/klæði: Skór (dló), buxur (buþuna), húfa (úva), bleia (beyja), úlpa (blúbla)
Umhverfið (utandyra): Snjór (þjónni), Pollur (?), laufblað (blaubla), blómið (blommi),
Dýr: Kisa (miþþa), hundur (voffi), api (abi), ugla (glugla/ú-hú), skjaldbaka (dadada), fugl (bíbí), fiðrildi (dillidí), kind (meme)
Farartæki: Bíllinn (bídlin), Hús/húsið (úþi), lest (tútú).
Athafnir: Pissa (biþþa), kúka, drekka (dlettla), ganga (labbilabb), sitja (didda), standa (dadda), sofa (lúlla), detta/datt, lita (laþa)
Matur/matarílát: Mjólk (?), peli (bela), glas (glaþ), brauð (blauþ), matur (namminamm), vatn (?), melóna (?), banani (manana), epli (blebli), ís (íþ), ber (beþ), allt morgunkorn = cheerios (dejóþ)
Sjónvarpsfígúrur: Dóra (dóla), Bubbi byggir (bubbi biþþi), Mikki mús (miþþa múþ), múmínalfarnir (múmín), barbapabbi (babba-ba), bambi (bambaló), Latibær (ba-ba-bæ)
Í sjónvarpinu: Fréttir (détti), Lottó
Ýmsu er sleppt í þessum lista, sérstaklega hljóðeftirhermun og tilfallandi eftiröpun sem ekki er í virkum orðaforða og svo öllu því sem ég hef gleymt (svona listi tínist bara hægt og bítandi saman).
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli