föstudagur, desember 05, 2008

Daglegt líf: Veikindahrina

Nú er veikindahrina búin að halda mér frá blogginu dögum saman. Signý var með eitthvað í hálsinum, einhvern vírus sem dró úr matarlyst hjá henni og gerði hana smá slappa. Ekkert alvarlegt. Umgangstíminn var samkvæmt lækni um tíu dagar. Hún mætti flesta dagana í leikskólann á meðan, en fór einu sinni slöpp heim. Þegar þessu var að ljúka, á fimmtudaginn fyrir viku síðan, hófst orrahríðin hins vegar fyrir alvöru. Seint um kvöld, þegar ég var á leiðinni í sund að slappa af, heyrði ég veinað að innan. Þegar ég kom að Signýju og Vigdísi inni í herbergi, og þar umhorfs eins í dramatískri fréttaljósmynd. Signý sat þar hágrátandi með æluna yfir sig alla og rúmið í kring útatað. Hún var nýsofnuð blessunin og vaknaði með þessum ósköpum. Ég frestaði sem sagt sundferðinni og var til stuðnings heima við í staðinn.

Signý kastaði upp daginn eftir og átti erfitt með að nærast og drekka. Svo virtist hún vera að braggast. Á laugardagsmorguninn byrjaði þetta sama hins vegar hjá Hugrúnu. Hennar ælupest var skammvinn en krafmikil. Eitt eftirmiðdegi fór í þetta þar sem við tvö sátum með dallinn við hendina og horfðum á morgunsjónvarpið (Signý lá slöpp inni þann morguninn). Síðan virtist Hugrún ætla að braggast og hafði öllu meiri matarlyst en Signý þegar Signý fór að kasta upp aftur. Svona hefur þetta verið síðan. Þær frískast aðeins inn á milli en versna jafn harðan aftur. Matarlystin lítil í samræmi við það. Hugrún öllu betri í maganum hins vegar.

Á miðvikudaginn var Signý hins vegar orðin nokkuð góð og fór í leikskólann. Ég fór í jólaföndur í leikskólanum seinni partinn og tók þá Hugrúnu með. Hún var frekar lítil í sér og vildi kúra meira en venjulega í fanginu á manni, en var að öðru leyti í lagi. Daginn eftir fór Signý aftur í leikskólann en við héldum Hugrúnu heima fram undir hádegi og ákváðum þá að láta slag standa. Hún var orðin fín. Sá dagur var viss léttir og okkur fannst sem þessu væri loks lokið. Báðar sprækar. Þá gerðist það um kvöldið, í gærkvöldi, að Signý byrjaði að gubba aftur, af þó nokkrum krafti, og tæmdi magann í þremur gusum. Síðan þá hefur hún verið slöpp og kúrt heima á meðan Hugrún fór í leikskólann í dag.

Við Vigdís höfum blessunarlega sloppið að mestu. Álagið hefur reyndar verið mikið og við orðin dauðþreytt. Ég var til dæmis sérstaklega þreyttur eftir helgina. Þá var ég einn með þær tvær veikar á meðan Vigdís vann tvær helgarvaktir á spítalanum. Í kjölfarið sleppti hún einni vakt, og ég var að sama skapi hundslappur og ósofinn á mánudaginn og sleppti vinnudegi. Þegar líða tók á vikuna fékk ég hins vegar furðulegan vírus, að ég held, sem leitaði út gegnum tunguna. Þar hef ég verið alsettur bólum á tungubroddinum. Ferlega óþægilegt. Öll ánægja af því að tyggja mat hvarf um tíma en matarlystin sem slík var samt í lagi (sérstaklega naut ég þess að bræða rjómaís ofan á tungunni). Í gær lagaðist þetta að mestu en í staðinn varð ég veikur með hefðbundnum hætti (sem styður grun minn um að þarna hafi verið á ferðinni vírus sem fann aðra útgönguleið). Þetta voru bara nokkrar kommur, svimi og beinverkir. Ekkert sem góð hvíld gat ekki lagað, enda mætti ég í vinnuna í dag. Nú er hins vegar að sjá til hvenær þetta klárast. Við þurfum líklega að trappa Signýju enn varlegar upp, enda er maginn hennar orðinn viðkvæmur eftir allt álagið. Eins gott að það gangi vel því það er bara rétt rúm vika í þriggja ára afmælið!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sagði mér læknir að þetta hafi verið hinn alræmdi magapestarveira, noro veiran sem hrjáði okkur öll og fleiri sem höfðu samskipti við okkur.
kv
J