laugardagur, desember 06, 2008

Daglegt líf: Tómstundir og leikföng

Fyrst ég minntist á afmæli Signýjar, þá hefur svolítið verið spurt um það í heimsóknum að undanförnu, hvað þær tvær vilji fá í jóla- og afmælisgjöf. Reyndar er það bara önnur þeirra sem á tvöfalda pakkaveislu framundan, en þær njóta sömu hlutanna og dótsins svo þetta nýtist allt jafnt. Það er svo stutt á milli þeirra að öllu leyti.

Í stað þess að senda tölvupóst á alla sem innt hafa okkur eftir hugmyndum þá finnst mér heppilegra að setja þær fram hér á vefsíðunni og vísa bara á hana - enda getur þetta verið áhugaverð lesning í leiðinni fyrir hvern sem er.

Það sem okkur ber saman um að ekki vanti eru föt. Nema kannski helst sokka. Hins vegar er auðvelt að koma manni á óvart með fötum og ef fólk rekst á eitthvað sérlega skemmtilegt þá nýtast góð föt alltaf vel þó vöntunin sem slík sé ekki til staðar. Gott er að hafa í huga að allt sem er merkt með Dóru eða Mikka mús er líklegt til að slá í gegn (og það á auðvitað við um leikföng líka).

Leikföng mæli ég hins vegar með að séu keypt í Hugföngum á Eiðistorgi. Sú bókabúð hefur nefnilega að geyma mörg áhugaverð þroskaspil sem hæfa bæði Hugrúnu og Signýju, spil sem snúast um talningu og liti og annað í þeim dúr.

Bækur höfum við tekið reglulega í bókasafninu gegnum tíðina. Tilvalið að benda á þær sem við höfum verið hvað duglegust að taka (enda augljóslega heppilegt að eiga þær). Einar Áskell er alltaf vinsæll, sérstaklega fyrsta bókin (Góða nótt). Hinar eru allar skemmtilegar, bara misjafnlega þungar aflestrar fyrir ung börn. Bók sem heitir "Ég vil fisk" og er nýlega útkomin (eftir Áslaugu Jónsdóttur) hefur slegið í gegn hér heima að undanförnu. Nú er nýkomnar út tvær bækur um Snillingana (sem þær horfa svo oft á saman). Þetta eru flipabækur og myndu eflaust hitta báðar beint í hjartastað. Einnig líst mér vel á tvær bækur sem við höfum sjálf gefið börnum vina okkar nýlega: Elmar og illfyglið (bók sem fjallar um gildi þess að standa saman) og nýútkomin bók um barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og heitir "Við erum fædd frjáls" (sérlega fallega myndskreytt bók).

Signý og Hugrún hafa unun af að horfa á góðar teiknimyndir. Þær eiga tvær góðar Disney-myndir á DVD (Lísu í Undralandi og Öskubusku 3) en þar má vel bæta við. "Bamba" höfum við oft tekið á bókasafninu (ótrúlega flott mynd) en aðrar myndir eiga eins við (fyrsta Öskubuskumyndin, Mjallhvít og fleiri í þeim dúr). Persónulega er ég hrifnari af gömlu Disney teiknimyndunum en þessum hasarteiknimyndum sem framleiddar eru í dag. Ég hef á tilfinningunni að athygli þeirra Signýjar og Hugrúnar sé eins og mín að þessu leyti. Þær klára frekar gömlu myndirnar, enda hægar og yfirvegaðri. Svo má ekki gleyma því að Mikki og Dóra eru alltaf geysivinsæl. Ég þori hins vegar varla að minnast á Latabæ hér, því mér leiðist sá varningur svolítið, en Hugrún og Signý eru samt líka mjög hrifnar af öllu sem Latabænum tengist. Ah! Ég var næstum búinn að gleyma Múmínálfunum og Skoppu og Skrítlu. Þær sita auðveldlega límdar fyrir framan þetta tvennt. Sjálfur er ég mjög hrifinn af Múmínálfunum, svo það komi hér fram og er eiginlega hissa á sjálfum mér að hafa ekki fyrir löngu verið búinn að kaupa diska með þeim. Svarið er náttúrulega bókasafnið, sem fyrr, en það er gott að eiga einn eða tvo heima þegar þær biðja sérstaklega um "Múmíndal" (eins og Hugrún kallar það núna).

Púsl eru mjög vinsæl samhlíða annarri afþreyingu. Það má segja að 30-50 bita púsl hæfi Signýju en Hugrún er einhvers staðar þar fyrir neðan (10-20). Annars er auðvelt að gleðja þær með nánast hverju sem er. Þær eru hrifnar af dýrum (Hugrún með sérstakt dálæti á mjúkum hundum og kisum en Signý með breiðari dýrasmekk og er komin meira út í dúkkur). Litlu máli skiptir hvort dýrin eða dúkkurnar eru mjúk eða hörð. Legó. Allt sem hægt er að stafla og raða upp eða í lárétta röð höfðar sérstaklega til Signýjar. Skemmtileg barnabingó eru vinsæl. Ekki má gleyma samstæðuspilum (okkur vantar einmitt svoleiðis). Þær eru báðar natnar við að skreyta sig (slaufur í hár eða eitthvað í þeim dúr). Það minnir mig á að stimplar gætu líka verið miklir gleðigjafar. Kannski eitthvað sem tengist myndsköpun. Þær eru báðar mjög natnar við að teikna.

Núna er ég tæmdur í bili. Takið þennan lista bara ekki of alvarlega. Hann er bara hugsaður sem uppspretta hugmynda og til að einfalda leitina fyrir jólin. Allt sem kemur á óvart er líka skemmtilegt út af fyrir sig.

Gleðilega aðventu!

Engin ummæli: