sunnudagur, desember 21, 2008
Þroskaferli: Leirmótun og piparkökur
Maður skyldi aldrei vanmeta það hvað ung börn skilja og geta. Í gær tók ég mig til og rúllaði út tilbúnu piparkökudeigi og fékk Signýju til að hjálpa mér. Hún hafði nú séð mig gera þetta einu sinni eða tvisvar áður, en var þá aðallega á hliðarlínunni. Núna var hún hins vegar ótrúlega örugg með öll handbrögð og mótaði fyrir fígúrum með skapalónunum án þess að fá neina sérstaka verklýsingu fyrir því. Síðan kom Hugrún (nývöknuð í hádeginu) og tók þátt. Þá var Signý ekki lengi að sýna henni hvernig best væri að bera sig að með kökukeflið og sagðist vera að "leira". Er þetta ekki það sama og þau gera þegar þau leira? Ekki höfum við keypt leir fyrir heimilið svo ég hef ekki spáð í það hingað til. Þarna kemur leikskólinn greinilega sterkur inn í mótunarferli Signýjar. En Hugrún var greinilega með á nótunum líka og emjaði eftir skapalónum með orðunum "ýta, ýta". Þetta orð hafði ég ekki heyrt koma frá henni áður og líklega orð sem tengist þessu tiltekna verklagi, að "ýta" skapalóninu í mjúkan leirinn eða deigið. Það er svo spennandi að fylgjast með þeim og finna hvað þær læra margt um lífið og tilveruna, líka þegar maður er víðs fjarri!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli