fimmtudagur, desember 18, 2008

Þroskaferli: Tvenn lítil tímamót

Við Hugrún fórum í klippingu í dag á mjög nærtækum stað í jólaerlinum. "Hárskerinn" á Eiðistorgi vann verk sitt fumlaust og afbragðs vel á meðan lúðrasveit hélt jólatónleika á torginu fyrir neðan. Hugrún og Signý voru heillaðar af flutningnum og héldu sig mikið til utandyra á meðan ég var klipptur enda þar yfirsýn yfir áhorfendur og hljómsveit. Þegar kom að Hugrúnu stóð hún sig frábærlega. Hún sat stillt og prúð, vafin svörtum stakki þannig að höfuðið eitt stóð upp úr (eins og að sjá hana stingu höfðinu upp úr olíubaði). Ótrúlega sæt. Eftir dágóða stund af sviplausum dugnaði brast henni hins vegar kjarkur þegar hún sá skærin sveiflast fyrir framan sig og fjarlægja ennistoppinn. Þá grét hún þannig að augun tútnuðu út en sat þó sem fastast. Líklega var hún hrædd allan tímann, bara þorði ekki að hreyfa sig. Upplifunin var þó ekki skelfilegri en svo að hárskerinn fékk myndarlegan fingurkoss að eldrauninni lokinni.

Stuttu seinna röltum við inn á bókasafnið (frábært hvað allt er í þægilegum hnapp á Eiðistorginu, öll grunnþjónusta). Þá kom í ljós að Signý þurfti að pissa. Hún hefur verið bleyjulaus að mestu undanfarnar vikur og mánuði. Yfirleitt höfum við skellt á hana til öryggis við svona aðstæður en vildum láta á þetta reyna núna - enda hefur hún sýnt fram á að geta haldið í sér furðu lengi í einu þegar hún ætlar sér það. Við fórum því saman á snyrtinguna, bleyjulaus og kopplaus. Þar aðstoðaði ég hana við að tylla sér og hún skilaði sínu. Hún er yfirleitt mjög hræðslugjörn og hefur hingað til miklað fyrir sér klósettskálar en í þetta skiptið var þetta ekkert mál og það sem meira er, hún var bara stolt af sjálfri sér. Þetta þýðir það að núna treystir maður sér frekar til að taka af henni bleyjuna þegar maður fer út úr húsi með hana og í heimsóknir og svoleiðis. Það eru út af fyrir sig talsverð tímamót og stuðlar auðvitað að enn betri árangri.

Ég hef nú ekki skrifað neitt um árangur Signýjar á þessu sviði að undanförnu. Þessi tímamót eru í mínum huga viss vendipunktur í ferli sem hófst í sumar. Þá ætluðum við að koppavenja hana - en vorum ekki nógu einbeitt til þess og henni sjálfri virtist standa alveg á sama þó við létum hana bleyta buxurnar ítrekað. Með haustinu læddum við hins vegar inn umbunarkerfi, með límmiðum og límmiðabók, og um tíma leit þetta vel út. Þegar hún byrjaði í leikskólanum kom hins vegar bakslag og hún missti áhugann aftur. Þá hvíldum við okkur og tókum næstu rögg í októberbyrjun og breyttum umbunarkerfinu. Henni fannst meira spennandi að geta tekið límmiðana með sér og handleikið þá þar til þeir urðu útjaskaðir, frekar en að setja þá í bók. Þá fóru hlutirnir að ganga hratt á ný og hún sýndi mikinn metnað. Í nóvember fórum við að vinna þetta með leikskólanum, enda var hún orðin býsna örugg á þeim tíma. Hins vegar höfum við haldið að henni bleyjunni á nóttunni og á flakki utan heimilis og lengi velt því fyrir okkur hvenær við ættum að stíga næsta skref. Árangurinn í dag var því liður í að hrinda hindrunum úr vegi.

1 ummæli:

Steini sagði...

Í morgun tók Signý næsta framfaraskref. Hún hélt sér þurri yfir nótt (ég tók af henni bleyjuna og var með undirbreiðslu á rúminu). Hún vakti mig rétt fyrir níu (Vigdís var farin á morgunvakt). Ég hafði ekki hugmynd um hvað klukkan var en rauk hins vegar á fætur þegar ég heyrði hana segja: "Pabbi. Ég vil pissa í kopp!".

Dugleg stelpa.