sunnudagur, desember 14, 2008

Upplifun: Afmælisveislan

Nú er Signý orðin þriggja ára, síðan í gær. Við héldum upp á afmælið með pompi og prakt og buðum ættingjum heim í kökuveislu. Vinum höfum við oft boðið í kjölfarið, á sunnudegi, en bíðum með það í ár fram yfir áramót vegna anna. Við Vigdís erum búin að standa í ströngu undanfarna daga og þurftum einfaldlega á drjúgum hvíldardegi að halda í dag til að hlaða batteríin. Nýta sunnudaginn sem hvíldardag, aldrei þessu vant. Aðdragandi afmælisins var nefnilega frekar lýjandi. Fyrst ber að nefna veikindin, sem héldu okkur frá bæði afmælis- og jólaundirbúningi (og raskaði vinnu lítillega). Signý og Hugrún náðu reyndar heilsu í vikunni og mættu vel í leikskólann en núna á fimmtudaginn var veiktist Hugrún á ný - eða í það minnsta kastaði upp, án frekari einkenna. Það gerðist aftur á föstudaginn. Við héldum henni því heima til vonar og vara daginn fyrir afmælið (föstudaginn). Einnig ber að nefna það að við Vigdís fórum bæði á jólahlaðborð með vinnunni okkar, í sitt hvoru lagi - Vigdís á fimmtudaginn og ég á föstudaginn. Þeir dagar voru því fullbókaðir í allt annað en undirbúning fyrir afmælið, í vinnu fyrripartinn og selskap um kvöldið (hitt okkar sem var heima var upptekið við að sinna Hugrúnu, sem var frekar óróleg).

Aðdragandi afmælisins var því ekki eins og best verður á kosið, en sem betur fer náðum við að nýta laugardaginn vel til undirbúnings (þá var vaknað snemma) og svo daginn í dag til að hvíla okkur. Við sváfum til skiptis fram til klukkan þrjú og þá fórum viö öll í góðan göngutúr og leyfðum Hugrúnu að renna með á snjósleða. Veðrið var hreint frábært og þær Signý og Hugrún komu rjóðar í kinnum heim, svona eins og klassísku börnin á jólakortunum. Síðan skutumst við í fiskisúpu til "Lóu frænku" og var það frábært til að ramma inn góðan dag. Núna finnst manni jólin komin - loksins. Nú vonar maður bara að þessi jólalegi snjór fljóti ekki út í hafsauga með næstu lægð.

Svo að ég minnist nú á veisluna líka sem slíka, þá heppnaðist hún furðu vel í gær, þrátt fyrir allt. Signý var kampakát og var með það alveg á hreinu hvað hún var gömul og lyfti yfirvegað upp þremur fingrum stolt í hvert skipti sem hún var spurð (fremur en að bera orðið "þriggja" fram - sem kannski vefst fyrir henni). Hugrún naut sína ágætlega þrátt fyrir slappleikann og fékk meira að segja að læða einu kerti með á súkkulaðikökuna, svona bara til að vera með. Stemningin var góð og afslöppuð, enda allir heimavanir hér. Húsið var fullt allan tímann og rúmlega það milli klukkan eitt og sex þrátt fyrir nokkur forföll. Í fyrra mættu ögn fleiri en núna og í staðinn held ég að þá hafi hver og einn hafi staldrað styttra við en í ár vegna plássleysis. Gestirnir voru því með makindalegra móti núna, svo ég felli einhvern dóm um hvernig til tókst. Þeir sem koma til okkar í seinni umganginum eftir áramót munu að sama skapi bara njóta góðs af, því þá gefst enn betri tími til að staldra við í staðinn, enda færri um hituna.

Engin ummæli: