þriðjudagur, desember 30, 2008

Pæling: Pakkaflóð

Nú eru jólin að baki. Ólíkt jólunum í fyrra þá komumst við alveg klakklaust í gegnum þau. Lífið er búið að vera værðarlegt undanfarna daga og við öll sofið meira eða minna út. Þegar við höfum tekið okkur á þá náum við í besta falli að vakna og ræsa stelpurnar um níuleytið.

Jólen voru mikil gósentíð. Gjafirnar flæddu yfir og undir og allt um kring. Þegar heim var komið vorum við Vigdís svo gáttuð á pakkaflóðinu, sem var óvenju mikið (burtséð frá kreppunni), að við ákváðum að taka mynd af herlegheitunum. Við röðuðum pökkunum öllum í stofusófann, eða öllu heldur gerðum heiðarlega tilraun til þess, því sófinn það reyndist ekki rúma allt góssið. Eftir að hafa stillt upp minni stólum fyrir framan náðum við þó öllu á mynd. Eftir á að hyggja held ég að þetta sé ágætis hefð. Það er ekki nema einu sinni á ári sem allir fá gjafir í þessu magni samtímis og því tilvalið að taka púlsinn á stöðunni með einni ljósmynd. Hún verður merkilegur vitnisburður þegar fram líða stundir.

Engin ummæli: